Næsta gos milli Keilis og Trölladyngju?
Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði og bergfræði við Háskóla Íslands, segir að þó svo að eldgosin á Reykjanesskaga valdi ekki manntjóni þá geti þau valdið margs konar skaða sem hefur mikil áhrif á líf okkar. Hann segir að nú sé leikhlé í Fagradalseldum og annað gos sé líklegt á svæðinu nærri Keili.
„Við vitum ekki nákvæmlega hvað gerist í náinni framtíð en við miðum við það að land er farið að rísa aftur á svipuðum slóðum og það er skjálftavirkni þarna og þá finnst mér nú líklegt að við fáum annað eldgos á þessu svæði. Mín fyrsta ágiskun er að næsta gos komi upp á svipuðum slóðum. Það eru vísbendingar um það, færsla á skjálftavirkni og eins líka hugsanlega kvikuvirkni og færsla til austurs. Við erum búnir að sjá aukna jarðhitavirkni á svæðinu milli Keilis og Trölladyngju. Jarðskjálftafræðingarnir hafa séð þar skjálftaskugga sem bendir til þess að það sé vökvi þarna niðri. Hugsanlega er það kvika sem hefur komið inn frekar grunnt. Hún hefur þá hitað grunnvatnið og aukið þessa jarðhitavirkni sem er þarna til staðar,“ segir Þorvaldur.
Margt komið á óvart
Hann segir að margt í gosunum þremur hafi komið vísindamönnum á óvart. Fyrst nefndi hann hversu rólegt fyrsta gosið var í upphafi og framleiðni lítil. Framleiðnin var rétt yfir þeim mörkum sem talið er að þurfi til að halda gosrás opinni fyrsta mánuðinn en jókst svo aðeins. Þegar nokkrar vikur voru liðnar af fyrsta gosinu kom inn ný kvika með aðeins öðruvísi efnasamsetningu, svipað heit en heldur meira þunnfljótandi. Sú kvika var gasríkari og kom upp á meiri hraða.
Þorvaldur segir að toppurinn á geymsluhólfi kvikunnar sé á tólf til tíu kílómetra dýpi en geti þess vegna náð niður á tuttugu kílómetra dýpi. „Það sem er merkilegast við nýju kvikuna sem kom upp eftir nokkrar vikur af fyrsta gosinu er að hún hefur efnasamsetningu sem ekki hefur sést áður á Reykjanesskaga. Hún er meira í ætt við það sem við erum að sjá koma upp innar í landinu, í grennd við Öskju og Bárðarbungu og á því svæði. Meira í ætt við það sem er að koma beint upp um möttulstrókinn sem er undir landinu.“
Hvað getur skýrt þetta?
„Það er ansi góð spurning. Ef við hugsum möttulstrókinn undir landinu, þá kemur hann upp og mætir skorpunni undir landinu. Þar leggst hann hugsanlega til hliðar og meira til vesturs en austurs vegna þeirrar færslu sem er í gangi. Það gæti vel verið að þarna hafi komið ferskari miðja úr möttulstróknum sem hefur lagst nýlega vestur með og náð alla leið út á Reykjanesskaga. Þessi kvika kemur þá úr þeim hluta stróksins. Þetta getur þýtt að það er aukin virkni í möttulstróknum, hann er eitthvað aðeins að eflast miðað við það sem hann var áður. Það er ein mögulegt túlkun á þessu. Ef að það er málið gætum við búist við aukinni eldvirkni á næstu áratugum og ekki bara á Reykjanesskaganum, heldur um landið allt.“
Enginn munur á milli eldstöðvakerfa
Aðspurður hvort þetta sé að kollvarpa hugmyndum vísindamanna um eldstöðvakerfin á Reykjanesskaganum, segir Þorvaldur bæði já og nei. Það sé spurning í dag hvernig eigi að skilgreina eldstöðvakerfin. Þar sé í dag horft á sprungur og dreifingu þeirra, sérstaklega gossprungur og svo efnasamsetningu kvikunnar sem kemur upp. Staðan sé sú að enginn munur sé á efnasamsetningu á milli eldstöðvakerfanna og hefur ekki verið undanfarin fjórtán- til fimmtán þúsund ár.
Geymsluhólfin eða hólfið sem sendir þessa kviku upp inniheldur samskonar kviku. Þá er það spurningin hvort þetta sé eitt geymsluhólf eða fleiri. Ef horft sé á sprungurnar og dreifingu á þeim, þá eru engar augljósar þyrpingar af sprungum. Erfitt sé að draga línur um mörk á milli eldstöðvakerfa. „Eru þetta í raun og veru svona mörg eldstöðvakerfi eða bara eitt kerfi sem vinnur saman,“ spyr Þorvaldur í viðtalinu við Víkurfréttir.
Ekkert hafi gerst í eldgosum á landi á Reykjanesskaganum í 781 ár þegar loksins braust út eldgos í Geldingadölum árið 2021. Aðdragandinn að eldgosum er langur og Fagradalsfjall og næsta nágrenni hafði skolfið reglulega í jarðskjálftahrinum árum og misserum áður en gosið náði loks til yfirborðs 19. mars 2021. Þorvaldur segir aðdragandann ekki einskorðaðan við Fagradalsfjall. Innskotavirkni var bæði í Svartsengi og Krýsuvík. Einnig hafi verið hrina eða hrinur undir Reykjanesinu og svo úti á Reykjaneshrygg, sem reyndar sé annað eldstöðvakerfi. Þorvaldur segir að alveg megi gera ráð fyrir að það geti gosið á Reykjaneshryggnum við Geirfuglasker og á þeim slóðum. Þar sé þekkt að hafi gosið. „Ég er sannfærður um að þetta endar með gosi þarna úti og þá gætum við fengið eitthvað gjóskufall“.
Eldgosin á Reykjanesskaga góður skóli
Þorvaldur segir að gosin þrjú sem orðið hafa í Fagradalseldum séu að kenna vísindamönnum mikið um hvernig fyrri gos á Reykjanesskaganum hafi verið. Ef gígmyndanir eru skoðaðar og bornar saman við það sem fyrir er á skaganum þá megi sjá mikla samlíkingu. „Þetta segir okkur að fyrri gos hafa sennilega verið mjög svipuð. Þetta er góð vitneskja fyrir okkur og bendir til þess að þetta muni halda áfram með sama mynstrinu. Og ef gosin verða áfram afllítil og tiltölulega smá í sniðum, þá er það langbest fyrir okkar samfélag því þá verða mestu áhrifin bara rétt í kringum eldstöðvarnar. Og á meðan eldstöðvarnar eru ekki beint ofan í byggð þá er þetta hið besta mál“.
„Mengun frá eldstöðvunum er það sem við þurfum að hafa áhyggjur af,“ segir Þorvaldur. „Ef gos sem dælir upp tíu rúmmetrum af kviku á sekúndu og það hafi varað í einhvern tíma, ekki vikur eða mánuði, heldur ár, þá erum við með eldstöð sem getur sett út tvö til fjögur þúsund tonn á dag af brennisteinsdíoxíði. Það er töluverð mengun og gæti orðið okkur til ama, þannig að við þurfum að gæta að okkur og fólk sem er veikt í lungum þarf að passa sig sérstaklega.“
Til að gos geti staðið yfir í mörg ár þarf að vera aðfærsluæð sem helst opin. Þar þarf að vera jafnvægi á milli innflæðis í geymsluhólf og útflæðis úr hólfinu. Einnig þarf að vera jafnvægi í gígunum sjálfum. Þorvaldur segir athyglisvert að í þeim gosum sem þegar hafa orðið að dýpri hlutinn af gosrásinni hefur verið notaður aftur og aftur fyrir kvikuna til að komast upp. Breytingin er bara í efstu ca. þremur kílómetrunum.
„Það er eins og þessi kvika sem er að koma upp sé að búa til gosrás sem gæti orðið stöðug og ef það tekst þá erum við komin með allar aðstæður fyrir dyngjugos eða að búa til hraunskjöld. Þá getum við verið með virkni í tugi eða hundruði ára á sama staðnum.“
Næsta gos í júní?
Blaðamaður Víkurfrétta skoðaði tíma á milli gosa í þeim eldum sem nú eru. Frá goslokum í næstu gosbyrjun eru annars vegar 319 sólarhringar og hins vegar 324. Þetta gerir þá að jafnaði 321 sólarhring á milli gosa á Reykjanesskaganum. Það er því spurning um það hvort næsta gos verði í júní á næsta ári samkvæmt þessu eða hvort atburðarásin sé hraðari. Þorvaldur segir að skoða þurfi hversu hratt landið sé að rísa. Ef það haldi svipuðum hraða, þá sé alveg möguleiki á að goshlé verði svipað og milli síðustu gosa.
„Það væri athyglisvert ef það færi að vera ákveðinn taktur í þessu og ef það viðhelst, þá finnast mér líkurnar á því að við fáum dyngjugos alltaf að aukast með hverju gosinu. Þá viðheldur þú þessari gosrás opninni, hún nær ekki að kólna á milli gosa.“
Heitustu svæðin frá Krýsuvík að Reykjanesi
Aðspurður hver séu „heitustu svæðin“ á Reykjanesskaganum með tilliti til eldgosahættu, þá segir Þorvaldur að hann horfi til svæðisins frá Krýsuvík og út á Reykjanes. „Það eru lang líklegustu svæðin fyrir næstu gos. Og við getum verið með fleiri en eitt gos í gangi í einu, það er líka möguleiki. Hugsanlega mun gjósa aftur í Fagradalsfjalli áður en eitthvað annað gerist. Segjum að Fagradalseldar komi með tvö til fjögur gos í viðbót, svipuð því sem við erum búin að vera að horfa á, þá gæti þessi virkni hægt á sér og tekið sér pásu í einhverja áratugi. Svo koma aðrir eldar en hvort þeir verða á Reykjanesinu eða í Krýsuvík, það er ekki gott að segja,“ segir Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði og bergfræði, í samtali við Víkurfréttir.
Ítarlegra viðtal við Þorvald er í myndskeiði í spilaranum hér að neðan.