Náðu í flugvélamótor og brot úr flugvél á Langahrygg
Hópur frá Byggðasafni Reykjanesbæjar, Sögu- og minjafélagi Grindavíkur, Bláa hernum og nokkrir áhugasamir einstaklingar gengu upp í hlíðar Langahryggs fimmtudaginn 8. júlí síðastliðinn. Tilgangur ferðarinnar var að sækja mótor og nokkur brot úr flugvél sem fórst þar 2. nóvember árið 1941. Flugvélin var af gerðinni Martin PBM-3D Mariner og var hún með skráningarnúmerið 74-P-8.
Veðrið þennan fimmtudaginn var ekki ólíkt því sem var þegar flugvélin fórst, svartaþoka og ekkert skyggni. Við slysið fórust allir í áhöfn flugvélarinnar, alls tólf manns. Flugvélin var að koma úr fylgdarflugi með skipalest sunnan við Ísland þegar slysið varð. Á þessum tíma voru Bandaríkjamenn ekki orðnir formlegir þátttakendur í seinni heimsstyrjöldinni heldur einungis að aðstoða Breta með hervarnir á Íslandi.
Í leiðinni var hreinsað upp verulegt magn af brotamálmi og öðru rusli sem var að finna á svæðinu.
Mótorinn verður til sýnis að Seylubraut 1 á samsýningu Byggðasafns Reykjanesbæjar og ýmissa áhugamanna um söfnun stríðsminja, „Það sem stríðið skildi eftir“ á safnahelgi á Suðurnesjum helgina 16. til 17. október næstkomandi.