Myndir: Travolta sýndi ljósmyndara afturendann
Goðsögnin John Travolta fór frá Keflavíkurflugvelli á níunda tímanum í kvöld ásamt föruneyti sínu. Hann sýndi ljósmyndara Víkurfrétta bara á sér afturendann þegar hann gekk um borð í Jett Clipper Ella, Boeing 707 einkaþotu sína. Hann hafði sem sagt ekki fyrir því að snúa sér við í landganginum og veifa til ljósmyndarans sem hann hafði veifað svo fallega til ágústnótt eina árið 2002 þegar hann var hér síðast á þessari gömlu og góðu þotu sem merkt er Qantas-flugfélaginu. John Travolta var klæddur í hvítar buxur, vatteraða úlpu og með derhúfu.
Það var ljóst að John Travolta og hans fólk hafði verið í myndarlegri verslunarferð á Íslandi því farangurinn bar þess vitni. Fjölmargir innkaupapokar voru bornir um borð í þotuna eða mun meiri farangur en fór frá borði sólarhring áður.
Lítið er vitað um ferðir John Travolta hér á landi. Hann var sóttur á þessum flotta Chevrolet Express árgerð 2004 sem sést á meðfylgjandi mynd og var skilað til baka á sama bíl. Að auki fylgdi sendibifreið með meiri farangur.
Þeir sem hafa upplýsingar um ferðir Travolta og föruneytis hér á landi geta sent nafnlausar ábendingar á [email protected].
Myndir: John Travolta og föruneyti fara frá Keflavíkurflugvelli nú í kvöld. Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson
Hluti af föruneytinu fer um borð í vélina.
Chevrolet Express árgerð 2004 skutlaði John Travolta á völlinn.