Myndi styrkja svæðið að taka við kennslu lögreglumanna
„Þetta myndi styrkja svæðið mjög svo við vonum það besta,“ segir Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri Keilis, um þann möguleika að skólinn taki við kennslu lögreglumanna af Lögregluskólanum. Keilir er einn fjögurra háskóla hér á landi sem hafa lýst yfir vilja á að taka að sér að kenna lögreglunám á háskólastigi. Hinir háskólarnir eru Háskólinn í Reykjavík, Háskólinn á Bifröst og Háskólinn á Akureyri. Fyrirhugað er að gera breytingar á lögreglunámi og myndi einhver háskólanna þá taka við af Lögregluskólanum næsta haust.
Keilir sækir um að kenna lögreglunemum í samstarfi við Háskóla Íslands þar sem skólinn hefur ekki rekstrarleyfi sem háskóli. Háskóli Íslands er stærsti eigandi Keilis. Að sögn Hjálmars er málið í farvegi og mun það skýrast fyrir næstu mánaðarmót hvaða skóli tekur við lögreglunáminu. „Málið er nú í höndum innanríkisráðherra og við bíðum eftir ákvörðun. Ef Keilir fær verkefnið hefjast viðræður um útfærslu í framhaldinu.“ Hjálmar segir aðstöðu til kennslu í lögreglunámi mjög góða á Ásbrú og að svæðið sé nú þegar mikið notað af lögreglunni og henti sérstaklega vel til verklegrar kennslu.