Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Myndband: „Við viljum ekki meira af þessu“
Félagar í Stopp-hópnum við skiltið sem reis við Fitjar í gær.
Þriðjudagur 19. júlí 2016 kl. 09:40

Myndband: „Við viljum ekki meira af þessu“

Stopp-hópurinn: Íbúar þessa samfélags hafa ekki verið spurðir leyfis varðandi slæmt umferðaröryggi.

Það vakti talsverða athygli þegar stopp-hópurinn setti upp umferðarskilti með sterkum skilaboðum við Reykjanesbraut í gær. Hópurinn hyggst áfram  þrýsta á stjórnvöld um að tvöfalda Reykjanesbrautina frá Keflavíkurflugvelli til Hafnarfjarðar, með ýmsum uppákomum á næstunni. Í dag fara fulltrúar hópsins á fund með innanríkisráðherra og Iðnaðar-, viðskipta- og ferðamálaráðherra til að koma á framfæri kröfum sínum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Við viljum í rauninni vekja athygli á málstað okkar, þessum 17.000 manna hópi sem kominn er á Facebook. Okkur fannst við þurfa að fylgja því eftir með táknrænum hætti, þetta er fyrsti liðurinn í því,“ segir Ísak Ernir talsmaður hópsins og íbúi í Reykjanesbæ.

Skilaboðin á skiltinu eru skýr að sögn Ísaks. „Á þessu eru stutt og hnitmiðuð skilaboð bæði á íslensku og ensku því nú er það þannig að meirihluti þeirra sem aka hér um eru erlendir ferðamenn þannig að skilaboðin þurfa að vera á báðum tungumálum.“

Ísak segir að hópurinn muni standa fyrir ýmsum uppákomum á samfélagsmiðlunum á næstunni. Verið sé að vinna myndband þar sem rætt er við þá sem hafa lent í slysi á Reykjanesbraut, sem og aðstandendur þeirra sem látið hafa lífið í slysum á þessum vegkafla. „Þetta er okkar samfélagslega verkefni og við verðum að standa saman í því. Sögurnar eru svo margar, þær eru svo erfiðar og sárar margar hverjar og við verðum að nýta þær til þess að segja að við viljum ekki meira af þessu.“

Ekki fékkst sérstakt leyfi til þess að staðsetja skilti við Reykjanesbrautina við Fitjar og við Rósaselstorg. „Við sem íbúar þessa samfélags höfum ekki verið spurð leyfis um hvort við viljum hafa slæmt umferðaröryggi. Við búum við slæmt umferðaröryggi og það er ekkert almennilegt verið að gera til þess að fara í bráðabirgðaaðgerðir er varða þessi þrjú hættulegu gatnamót. við Hafnarafleggjara, Aðalgötu og Þjóðbraut. Þannig að við verðum að gera eitthvað. Ég veit að vegagerðin er öll að vilja gerð en það er pólitíkin sem verður að koma með fjármuni í þetta verkefni. Við erum ekki með leyfi en við höfum ekki verið spurð leyfis hvort við viljum búa við sæmt umferðaröryggi.“

Viðtalið við Ísak má sjá hér að ofan.