Myndavélin kom upp um hátalaraþjóf í Sundmiðstöðinni
Þjófnaðaraldan sem nú ríður yfir hér á svæðinu náði inn í Sundmiðstöð Keflavíkur í síðustu viku en þá var tveimur stórum hátölurum stolið úr leikfimisal á neðri hæð. Myndavélakerfi sundmiðstöðvarinnar „gómaði“ unga manninn á mynd og hann skilaði hátölurunum eftir að lögreglan hafði upp á honum.
Ungi maðurinn sem tók hátalarana mætti með kærustu sinni í sundlaugina áður en hann lét til skarar skríða og átti góða stund í heita pottinum með sinni heitt elskuðu, kyssti hana þar og knúsaði og virtist í góðum gír. Hann fór síðan inn í leikfimisalinn og bar út hátalarana í gegnum útganginn sem snýr að knattspyrnuvelli Keflvíkinga en hátalarnir eru mjög stórir og þungir. Hann kom svo upp aftur, brosti framan í myndavélina um leið og hann gekk út um aðalútganginn að framan. Þegar starfsmaður Lífsstíls varð var við hátalaramissinn hafði hann þegar samband við lögregluna. Hún var ekki í vandræðum með að hafa upp á kauða því hann hafði greitt aðgang í sundmiðstöðina með greiðslukorti. Þannig var eftirleikur lögreglunnar auðveldur sem hafði upp á honum fljótt og vel.
Myndavélakerfi sundmiðstöðvarinnar hefur oft komið í góðar þarfir, m.a. þegar gestir hafa tekið skó annarra gesta ófrjálsri hendi eða jafnvel óvart. Smáþjófar sem hafa nappað samloku eða drykkjum úr sjálfsala hafa einnig verið gripnir í mynd.
Þjófurinn gekk inn langan ganginn á neðri hæðinni með hátalarana út. Að ofan má sjá aðalinngang sundmiðstöðvarinnar.