Myndarlegt mannvirki sem er öllum til sóma
Gylfa Guðmundssyni, skólastjóra Njarðvíkurskóla, finnst einsetningin hafa gengið vel. „Við höfum nægilega margar stofur svo það er í raun auðvelt við þetta að eiga sé horft á húsnæðið eitt og sér. Auk þess þurftum við fleiri kennara en áður því nú er öllum kennt á sama tíma. Í fyrra voru 29 kennarar við skólann. Í vetur eru þeir 32. Ég var auðvitað hræddur um að ekki tækist að ráða í kennarastöður en það tókst og skólastarf í einsetnum Njarðvíkurskólagengur nokkuð vel.“Í skólanum eru 446 nemendur. Þeir eru allir á sama tíma í skólanum. Það þýðir meira álag á alla starfsmenn, að sögn Gylfa, ekki síst gangaverði og starfsfólk í eldhúsi. Mjög stór hluti nemenda borðar í mötuneyti skólans í hádeginu, 370 nemendur þegar flest hefur verið. „Það þarf gott skipulag og duglegt starfsfólk til að afgreiða svo stóran hóp. Það er ástæða til að þakka starfsfólki öllu og nemendum einnig hversu vel þetta gengur“, segir Gylfi.Þann 1. september voru allar almennar kennslustofur afhentar og kennsla hófst á réttum tíma. Aðstæður höguðu því svo að að nauðsynlegt var að gefa einn dag frí. Að öðru leyti tókst að halda uppi eðlilegri kennslu í öllum bóklegum greinum en handmenntastofur voru ekki tilbúnar. „Við höfum verið að taka handmenntastofurnar í notkun jafnóðum og þær verða tilbúnar. Smíðastofan er að komast í gagnið þessa dagana. Glæsileg tölvustofa er tilbúin og þar er full kennsla. Internettenging hefur legið niðri vegna breytinga í tölvuveri en við höfum átt möguleika á tengingu á skrifstofum skólans. Skólagæsla er ekki enn komin í notkun, sama getum við sagt um gamla innganginn. Þetta verður allt tilbúið eftir nokkra daga“, segir Gylfi og er bjartsýnn á framhaldið.Síðastliðinn sunnudag heimsóttu um 250-300 manns skólann og skoðuðu húsið. Gylfi er að vonum ánægður með þá aðsókn. „Það var góð hugmynd að sýna alla skóla byggðarlagsins á sama tíma. Ég hitti hér fólk sem hafði heimsótt alla skólana. Mér fannst fólk upp til hópa vera ánægt með það sem hér hefur verið gert enda er skólahúsið glæsilegt. Þetta er myndarlegt mannvirki og er okkur öllum til sóma. Hvar sem á er litið sjáum við gott handbragð og vandað. Það er ástæða til að þakka öllu því góða fólki sem vann hér í allt sumar við þessa byggingu“, segir Gylfi.Hönnuður breytinga og viðbyggingar er Haraldur Valbergsson, Hjalti Guðmundsson er verktaki og eftirlitsmaður fyrir hönd bæjarins er Leifur Ísaksson. Skólastjórnendur og umsjónarmaður skóla sátu í hönnunarnefnd allan tímann. Skólahúsið er ekki fallegt að utan eins og stendur en það stendur til bóta því húsið verður málað fyrir veturinn.