Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Mánudagur 18. febrúar 2002 kl. 15:51

Myllubakkaskóli fagnar 50 ára afmæli þessa viku

Um þessar mundir og nákvæmlega sunnudaginn 17. febrúar 2002 eru 50 ár liðin frá vígslu Barnaskólans í Keflavík árið 1952. Bygging skólans hófst hins vegar árið 1948 og lauk fjórum árum síðar. Í afmælisviku skólans sem stendur frá 18. - 22. febrúar 2002 hefst skóladagur nemenda kl. 9 alla daga og stendur til kl. 13.30. Unnið verður með þema og í smiðjum. Smiðjurnar eru allar aldursdreifðar og reynir þar á þau eldri hjálpi og aðstoða þau yngri. Í hinu ágæta blaði Faxa sem geymir margan fróðleikinn um bæinn okkar eru birtar ræður sem fluttar voru við þetta tækifæri. Þar segir m.a. um þennan merka atburð og er hér vitnað í orð Ragnars Guðleifssonar þáverandi bæjarstjóra og síðar kennara við skólann : "Við höfum nú verið viðstödd vígslu hins nýja barnaskólahúss. Það er að sjálfsögðu orðinn hversdagslegur viðburður, hin síðari ár, að vígt sé barnaskólahús í þessu landi. Hin síðustu ár hafa héruðin hér umhverfis keppzt um að byggja hús fyrir barnaskóla sína og nú er svo komið að við Keflvíkingar erum síðastir í röðinni. En nú stöndum við jafnfætis nágrannahéruðum, á þessu sviði og við höfum náð, að mestu langþráðu marki. Þessi dagur hlýtur því að verða okkur sankallaður helgidagur. ....... Nú í dag er byggingarkostnaður þessa húss orðinn 1700 þús. króna. Að vísu er skólahúsið sjálft nokkuð stærra en upphaflega var áætlað eða 10 kennslustofur....... Húsið er ómúrhúðað að utan, ekki fullmálað að innan, fimleikahúsið óbyggt og ekki hvað sízt, lóðin er óunnin og er þar mikið verk og vandasamt að vinna. ........ Eins og mér er ljóst, að skólahús, hve fullkomið, sem það er, er ekki einhlítt til þess, að góður árangur náist við fræðslu barna og uppeldi, þá er ég þess fullviss, að hrein, björt og rúmgóð húsakynni eru tæki, sem í höndum góðs kennara eru mikilsverð við uppeldisstarfið. ....... Hér megi æskudraumar fæðast, voldugar hugsjónir eflast, sem verði að veruleika til heilla þessu byggðarlagi og þjóðinni allri."
Þannig mæltist fyrsta bæjarstjóranum okkar við vígslu skólans fyrir 50 árum. Við athöfnina voru fluttar margar ræður, þrjú ljóð flutt til skólans og öllum sem að verki komu þökkuð vel unnin störf.


Afmælisvika

Í afmælisvikunni okkar 18. - 22. febrúar 2002 hefst skóladagur nemenda kl. 9 alla daga og stendur til kl. 13.30. Unnið verður með þema og í smiðjum. Smiðjurnar eru allar aldursdreifðar og reynir þar á þau eldri hjálpi og aðstoða þau yngri. Í þemanu vinna nemendur í
1. - 7. bekkjum hver í sínum hópi, en hinir eldri aldursblandast.
Dagskrá fyrstu fjóra dagana, mánudag til fimmtudags er eftirfarandi.

kl. 9:00 - 10:20 Smiðjur í gangi hjá öllum aldurshópum

Að lokinni smiðjuvinnu vinnur yngsta stig (1. - 4. bekkur) að þema sem hér segir :

kl. 10:20 - 10:30 frímínútur

kl.10:30 - 11:00 þemavinna

kl. 11:00 - 11:40 matur og frímínútur

kl. 11:40 - 12:25 þemavinna

kl. 12:35 - 13:10 þemavinna

Miðstig (5. - 7. bekkur) vinnur að þema sem hér segir:

kl. 10:20 - 10:40 frímínútur

kl.10:40 - 11:20 þemavinna

kl. 11:20 - 11:50 matur og frímínútur

kl. 11:50 - 12:35 þemavinna

kl. 12:35 - 13:15 þemavinna


Elzta stig (8. - 10. bekkur) vinnur að þema sem hér segir :

kl. 10:20 - 10:40 frímínútur

kl.10:40 - 11:20 þemavinna

kl. 11:20 - 11:40 uppákoma

kl. 11:40 - 12:10 matur

kl. 12:10 - 12:50 þemavinna

kl. 12:50 - 13:30 þemavinna


Margt verður í boði afmælisvikuna

Fyrsta dag afmælisvikunnar mánudaginn 18. febrúar verður nemendum 5. - 10. bekkja boðið upp á tónleika í Keflavíkurkirkju hjá hljómsveitinni Tanhatu Marimba, sem skipuð er 6 stelpum 15 - 16 ára gömlum frá Fredrikstad í Noregi. Yngri nemendur í 1. - 3. bekk fá brúðuleikhússýningu frá Leikhúsinu 10 fingur, sem flutt verður í félagsaðstöðunni. Vönduð og vel gerð leiksýning fyrir yngri áhorfendur og fjallar um Mjallhvíti og dvergana sjö. Tónleikarnir í kirkjunni verða kl. 11:20 og raskar dálítið hádegismatartímanum hjá eldri stigunum tveimur. Leikritið um Mjallhjvít og dvergana sjö hefst kl. 12.25

Haldið upp á afmælið með pompi og pragt

Á föstudegi verður dagskrá með eilítið öðrum hætti og vonandi ef veður leyfir, að framkvæmd hennar takist. Þá er gert ráð fyrir að allir nemendur komi í röðum út á skólalóð kl.9.00. Þar tengjast raðirnar síðan saman, hönd í hönd og afmælissöngurinn látinn hljóma. Þá verður 400 blöðrum sleppt út í himinblámann og farið í skrúðgöngu, undir trommuslætti, í furðufötum að Íshússtíg, þar sem fyrsti skólinn stóð og þaðan upp að Skólavegi, að gamla skólanum sem reistur var 1911. Göngunni lýkur við Myllubakkaskóla og þá verður boðið upp á brúðuleikhús fyrir nemendur 4. - 6. bekkja og fjallar um Leif heppna. Þetta er gamanleikrit sem á skemmtilegan hátt vekur börn og fullorðna til umhugsunar um ferðir Leifs Eiríkssonar. Nemendur 7. - 10. bekkja er boðið upp á leikritið Ókindarkvæðið "Það var barn í dalnum ", sýningin verður í matsal skólans. Nemendum 1. - 3. bekkja verður boðið upp á myndbandsýningu með poppi á meðan þau eldri eru á leiksýningunum. Eftir sýningarnar verður nemendum boðið upp afmælistertu og gos. Að lokum verður boðið upp á leiksýningu nemenda og hljómsveit kennara í matsalnum.
Afmælisdagana mánudag til fimmtudags verður skólinn opinn fyrir gesti og gangandi. Allir eru hjartanlega velkomnir og eru foreldrar sérstaklega hvattir til að líta við í afmælisvikunni. Foreldrafélagið mun annast kaffiveitingar fyrir gesti, í boði Kaffitárs. Fulltrúar í stjórn félagsins okkar munu einnig leiðbeina fólki um skólann og veita upplýsingar ásamt starfsfólki hvar vinna fer fram og hvar nemendur er að finna í hinum ýmsu verkum, í smiðju eða þema.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024