Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Mygla í elsta skóla Reykjanesbæjar
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
miðvikudaginn 20. október 2021 kl. 15:46

Mygla í elsta skóla Reykjanesbæjar

Mygla hefur greinst í Myllubakkaskóla í Keflavík og hafa nokkrir starfsmenn og nemendur fundið fyrir verulegum einkennum. Lagfæringar á þessum sjötuga grunnskóla hafa farið fram en hafa ekki borið fullnægjandi árangur. Skólastjóri Myllubakkaskóla er einn þeirra sem er í veikindaleyfi vegna myglunnar en einnig fleiri starfsmenn.

Nærri tvö ár eru síðan myglan greindist fyrst að sögn Helga Arnarsonar, sviðsstjóra fræðslusviðs Reykjanesbæjar, en málið hefur reynst erfiðara en áætlað var. Mygla hefur fundist á mörgum stöðum í byggingunni en elsti hluti hennar er frá árinu 1952.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Við höfum fengið sjö skýrslur sem hafa verið unnar eftir sýnatökur og sýna allar einhverja myglu. Það er búið að lagfæra fullt en þegar mygla var farin að finnast víðar í húsnæðinu var talið rétt að hætta að vera með einhverjar reddingar og fara í heildstæðari aðgerðir,“ segir Helgi.

Málið var tekið fyrir á fundi bæjarráðs Reykjanesbæjar síðastliðinn fimmtudag. Þar lagði formaður bæjarráðs til að stofnaðir yrðu tveir starfshópar sem tækju strax til starfa við að kanna umfang vandans og leita leiða til úrbóta eins fljótt og auðið er. 

Annar starfshópurinn myndi skoða aðgerðir sem snúa að núverandi húsnæði en hinn myndi finna lausn með bráðabirgðahúsnæði ef þess gerist þörf.

„Við ætlum sem sagt að staldra við núna og stöðva framkvæmdir sem voru hafnar eða voru á teikniborðinu og fá álit frá fleiri sérfræðingum. Við höfum verið með sérfræðinga með okkur í þessu en aðrir skólar sem hafa lent í svipuðum málum hafa nýtt sér þjónustu fleiri sérfræðinga. Þetta er stærra vandamál en við gerðum okkur grein fyrir. Það er ljóst að það þarf að gera verulegar endurbætur á þessum elsta grunnskóla bæjarins. Nú er tengibygging í skólanum innsigluð en ekki lokuð en að öðru leyti er allt annað húsnæði skólans í notkun. Vonandi gengur okkur vel í þessari vinnu í starfshópunum og finnum endanlega lausn á vandamálinu,“ sagði Helgi.

Í Myllubakkaskóla eru um 370 nemendur og kennarar og starfsmenn eru um áttatíu.