Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Munum setja málefni eldri borgara í forgang
Föstudagur 25. maí 2018 kl. 13:03

Munum setja málefni eldri borgara í forgang

- Hallfríður G. Hólmgrímsdóttir, oddviti Miðflokksins í Grindavík

Kosið er til bæjarstjórnar í Grindavík á morgun, laugardaginn 26. maí. Víkurfréttir lögðu tvær spurningar fyrir oddvita allra framboðslista í Grindavík.

Hver eru stærstu kosningamálin í þínu sveitarfélagi fyrir þessar kosningar?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það eru málefni eldri borgara og dagvistunarmálin sem brenna hvað heitast á bæjarbúum. Fráfarandi meirihluti bæjarstjórnar bætti við sex íbúðum fyrir eldri borgara á tímabilinu en þörfin er töluvert meiri og mun bara aukast á komandi árum.  Varðandi dagvistunarmálin þá hefur verið erfitt að koma ungum börnum að í dagvistun þar sem fáir dagforeldrar hafa fengist til að sinna því starfi.

Hver eru helstu málefni ykkar framboðs, að þessu sinni?

Við í Miðflokknum munum setja málefni eldri borgara í forgang og ber þá helst að nefna fjölgun íbúða við Víðihlíð og koma upp félagsaðstöðu sem rúmar starfsemi þeirra. Einnig þarf að endurskoða húsaleigumál, fasteignagjaldaviðmið, garðslátt á sumrin, heimaþjónustu og mögulega hreystigarða á einhverjum af þeim opnu svæðum sem við höfum víða um bæinn okkar.
Við ætlum að fjölga leikskólarýmum þannig að við getum tekið inn börn frá 12 mánaða aldri og einnig munum við beita stjórnvöld þrýstingi á að lengja fæðingarorlofið í 12 mánuði.
Við ætlum að fjölga félagslegum húsnæðum og einnig ætlum við að tryggja aukið framboð af lóðum fyrir húsnæði undir 100 m2. með stýringu á lóðarúthlutunum.

Gera þarf miklar endurbætur á sundlaug okkar og klára aðstöðuna við Hópið sem er enn ófrágengið frá því það var byggt. Ráðast þarf í stækkun á Hópskóla þar sem farið er að þrengja að í skólunum. Við ætlum að endurskoða ýmsa verkferla og boðleiðir hjá stjórnsýslunni og við ætlum að virkja Kvikuna með ráðningu á ferðamálafulltrúa.  
Það er af nógu að taka í ört vaxandi bæjarfélagi eins og Grindavík því er mikilvægt að beita skynsemishyggju og hafa forgangsröðina rétta.