Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

„Munum búa í húsi með vel reiknuðu burðarþoli!
Sunnudagur 26. desember 2004 kl. 19:22

„Munum búa í húsi með vel reiknuðu burðarþoli!"

Það er svo sem ekki orðið í frásögur færandi þegar Íslendingar halda til útlanda í nám og hvað þá til Skandinavíu. En það er þó ekki algengt að pör fari í sama nám erlendis, en það hafa einmitt Jón og Elísabet, ungt Suðurnesjapar, gert. Þau stunda nám í verkfræði í háskólanum í Þrándheimi, Noregi. Jón heitir fullu nafni Jón Bergmann Heimisson (24), er kallaður Nonni og er að eigin sögn Garðsmaður í húð og hár. Elísabet er Rúnarsdóttir (22) og er Keflvíkingur mikill. Blaðamaður TVF hafði samband við þetta duglega og hressa par og spurðist fyrir um námið, lífið í Noregi og fleira.
 
Elísabet gekk í Myllubakkaskóla og Holtaskóla í Keflavík en Nonni í Gerðaskóla. Nonni hóf nám í Fjölbrautaskóla Suðurnesja að grunnskólagöngu lokinni og sama gerði Elísabet tveimur árum síðar. Nonni fór til Tulsa í Bandaríkjunum í flugvirkjanám þannig að þegar hann kom heim aftur var Elísabet komin jafn langt og hann í námi í FS. Þar lágu leiðir þeirra saman en þau höfðu ekkert vitað af hvoru öðru fyrir þann tíma. „Við kynntumst á síðasta árinu okkar í FS en þá vorum við einmitt saman í Aðlinum. Við kynntumst frekar fljótt í gegnum Aðalinn og sjoppuna, sem hann rekur. Þegar maður hangir allan daginn með sama fólkinu í þessari litlu okurbúllu þá fer ekkert fram hjá manni og áður en við vissum af vorum við farin að gefa hvort öðru auga. Við byrjuðum samt ekki saman fyrr en um jólin, rétt áður en við fórum í útskriftarferðina okkar til Ríó í Brasilíu."

Aðspurð hvor þau voru búin að gera upp hug sinn um hvert leiðin lægi að loknu framhaldsskólanámi segist Elísabet hafa verið búin að velja verkfræðina strax að loknu öðru ári í FS en Nonni var ekki eins ákveðin og segist nánast hafa ákveðið það í flugvélinni á leiðinni til Þrándheims. En hvers vegna varð Þrándheimur fyrir valinu?
„Okkur langaði bæði til að fara eitthvert til útlanda í skóla. Ég var búin að ákveða að fara til Þýskalands að læra verkfræði en þegar Nonni kom inní myndina og við fórum að skoða þetta aðeins betur þá heilluðumst við meira af því að fara til Noregs. Þar sem frænka mín var í þessum sama skóla og við erum í, var mjög auðvelt að fá hjálp til að byrja með og hún hafði ekkert nema gott um skólann að segja, þannig að við slógum til", segir Elísabet.

Þau eru bæði á nýrri braut í NTNU (Norges teknisk-naturvitenskaplige universitet) sem kallast „Ingeniørvitenskap og IKT". Námið sameinar tölvuverkfræði og önnur svið verkfræðinnar. „Þetta er fimm ára nám og um jólin verðum við hálfnuð. Fyrstu tvö árin byggjast nær eingöngu upp á stærðfræði, eðlisfræði og tölvufögum, en á þriðja ári getur maður valið á milli t.d. byggingar-, véla- og orkuverkfræði auk fleiri deilda. Elísabet valdi byggingarverkfræði og er þessa dagana því á fullu að reikna burðarþol, „byggja" brýr og fl. Ég valdi mér aftur á móti orkuverkfræði en í henni lærir maður t.d. um virkjanir, hvernig best sé að nýta orkuna til að hita upp hús, hvernig við notum strauma og flæði til að koma flugvél á loft eða til að keyra sem hraðast í Formúlu 1 kappakstrinum, svo eitthvað sé nefnt. Við völdum þessi svið því okkur fannst þau spennandi og krefjandi og gátum alveg séð okkur vinna við þetta í framtíðinni", segir Nonni.

Hvernig líkar ykkur skólinn og allt sem honum fylgir?

„Okkur líkar skólinn mjög vel. Hann er mjög stór en það eru um 22.000 nemendur í honum, en þrátt fyrir það er hugsað vel um okkur.  Félagslífið hérna er ótrúlega gott, alltaf eitthvað að gerast. Svo er íþróttafélag skólans mjög virkt, þar sem boðið er upp á nær allar heimsins íþróttir; allt frá fótbolta til klettaklifurs, fimleika, dýfinga og svo mætti lengi telja. Ég lét t.d. plata mig út í fótboltan og spila hérna með liði sem heitir „Trygg Lade" og er í 5. deildinni. Bara gaman að því!", segir Nonni og brosir. „Við mælum tvímælalaust með þessum skóla og þessu námi. Það er ekki oft sem maður er í námi og hlakkar til að mæta í skólann á hverjum degi...Eða svona næstum því á hverjum degi", bætir Elísabet við og hlær.

Hvernig gengur að vera par í sama námi?

„Það hefur gengið alveg ótrúlega vel, þar sem við erum bæði svo ógeðslega skemmtileg! Fyrstu tvö árin okkar hérna í skólanum vorum við saman í öllum tímum og okkur fannst það hjálpa okkur mjög mikið til að ná námsefninu og bara að komast inn í skólann og samfélagið almennt", segir Nonni og Elísabet bætir við:
„En núna erum við bara saman í einu fagi og höfum því þurft að standa á eigin fótum.  Það hefur verið allt öðruvísi en líka mjög skemmtilegt og krefjandi. Við hugsum samt að þetta sé ekki fyrir hvern sem er að fara svona saman út í sama nám, því við vorum saman öllum stundum. Við höfum oft verið spurð að því hvernig við getum verið svona mikið saman og hvort við fáum ekkert leið hvort á öðru, en það hefur allavega ekki verið vandamál hingað til. Við erum bara farin að þekkja hvort annað ansi vel."

Blaðamanni lék forvitni á að vita hvernig það sé að læra á öðru tungumáli en íslensku og hvernig hafi gengið að ná norskunni og komast inn í samfélagið.  „Það hefur gengið mjög vel að læra á norsku og skilningurinn var fljótur að koma, en við vorum ekki eins bjartsýn í fyrsta tímanum sem var heimspeki. Kennarinn var gamall og mjög óskipulagður en byrjaði fyrsta tímann af fullum krafti og skrifaði bara niður stikkorð á töfluna sem við náðum engu samhengi í og við hugsuðum bara hvað við værum eiginlega búin að koma okkur út í!  En þetta var fljótt að koma og krakkarnir í bekknum okkar voru dugleg að hjálpa okkur.", segir Elísabet.
„Þó það hljómi ótrúlega þá lærðum við mest af norskunni í stærðfræði, allavega svona til að byrja með.  En fyrsti stærðfræðikennarinn okkar talaði mjög skýra norsku og skrifaði nánast allt sem hann sagði upp á töflu. Við vorum nokkuð fljót að ná að skilja norskuna en talið var ekki eins fljótt að koma, enda töluðum við bara íslensku okkar á milli og reyndum svo að babbla það allra nauðsynlegasta á norsku. Norskt samfélag er ekki svo ósvipað því íslenska og því vorum við fljót að aðlaga okkur. Norðmennirnir voru líka mjög vinalegir og líta yfir höfuð ekki á Íslendinga sem útlendinga, við vorum einhvernveginn bara strax hluti af hópnum", bætir Nonni við.

Þið hafið sem sagt kynnst mikið af skemmtilegu fólki en eru ekki einhverjar sérstaklega skrautlegar persónur sem þið getið sagt frá?

„Fyrsta sem kemur upp í hugann er Linda Löfdal!  En þegar við byrjuðum í skólanum fengum við okkur fartölvu og þessi Linda var með það hlutverk að sjá um að allar tölvurnar hjá krökkunum í deildinni væru í réttu standi.  Það kom fyrir að við þurftum að fara með tölvuna til hennar til að láta hana kíkja aðeins á hana.  Hún er svona týpísk strákastelpa, sat ásamt tölvustrákunum inní einhverri kompu fullri af sundurrifnum tölvum með tveggja lítra diet kók í hendinni og munntóbak í hinni.  Hennar helsta ráð til að laga tölvurnar var að slökkva og kveikja á þeim aftur, sama hvað vandamálið var. Hún er ótrúlega skrautlegur karakter, og manni var ekki alveg sama þegar hún var að fikta í tölvunni með munntóbaksklístruðu höndunum.", segir Nonni og grettir sig.

Flestir sem hafa búið erlendis hafa frá einhverjum sögum um skondin aðlögunaratvik að segja. Lumið þið á einni slíkri? 

„Við munum eftir einni svona í fljótu bragði. Það var á fyrsta haustinu sem við vorum hérna. Einn morguninn vorum við á leiðinni í skólann og skildum ekkert í því hvers vegna það var enginn á ferli.  En við héldum ótrauð áfram upp í skóla þar sem allt var lokað og læst. Svo komumst við að því klukkutíma seinna að þetta var víst dagurinn þar sem Norðmennirnir breyta klukkunni!", segir Elísabet og brosir vandræðalega.

Hvernig mynduð þið lýsa norska landinu og þjóðinni?

„ Langt og mjótt! ;)  Okkur líkar mjög vel við Norðmennina og Noreg yfir höfuð.  Við höfum ekki kynnst þessum leiðinlegu nísku Norðmönnum sem svo margir heima tala um.  Það var búið að vara okkur við að maturinn hérna væri vondur og lítið úrval, Norðmenn væru nískir og leiðinlegir og kynnu ekki að skemmta sér og væru komnir í háttinn klukkan átta.  En þetta hefur farið framhjá okkur, og við virðumst finna nóg af góðum mat og skemmtilegu fólki, sem kann sko heldur betur að skemmta sér!", segir Nonni. „Norðmenn eru  mun afslappaðari en Íslendingar, enda toppar engin þjóð Ísland þegar kemur að stressi og hamagangi. Okkur finnst einnig mjög jákvætt að það sé reykingabann á öllum opinberum stöðum. Maður angar ekki eins og öskubakki eftir að hafa farið aðeins út að skemmta sér.", bætir Elísabet við en í Noregi hefur verið sett reykingarbann á alla veitinga- og skemmtistaði

Þið eruð augljóslega mjög sátt við land og þjóð. Er lífið þarna úti eintóm hamingja?

„Við höfum alla vega ekki margt neikvætt að segja en það er kannski tvennt sem við höfum látið fara smá í taugarnar á okkur. Það að tala norsku er ekki það sama og að tala norsku.  Það eru svo margar mállískur í gangi hérna að sumir Norðmenn skilja ekki aðra Norðmenn.  Þannig að stundum þegar maður talar við einhvern þá skilur maður allt og finnst maður vera voða klár en um leið og maður snýr sér við og talar við einhvern annan þá skilur maður ekki neitt. Svo finnst okkur mjög leiðinlegt að ekki sé selt íslenskt nammi hérna í búðunum, skiljum ekkert í þessu", segir Elísabet.

En hvar sjáið þið ykkur að námi loknu?

„Vonandi í einhverri góðri og skemmtilegri vinnu annað hvort í Noregi, á Íslandi eða jafnvel bara einhvers staðar allt annars staðar. Við erum eiginlega ekki búin að hugsa svona langt", segir Elísabet.  „Held við stefnum bara á þetta týpíska:  vera í góðri vinnu, eignast hús með vel reiknuðu burðarþoli (!) og aka um á umhverfisvænum bíl, ferðast, eignast fjölskyldu, skemmta okkur og eitthvað svoleiðis", segir Nonni og slær þar með botninn í ánægjulegt samtal blaðamanns við þetta atorkusama par.

Texti: Bryndís Jóna Guðmundsdóttir

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024