Munir hrundu úr hillum í Grindavík í skjálftanum
Munir á Saltfisksetrinu í Grindavík féllu úr hillum í hörðum jarðskjálfta nú áðan. Skjálftinn mældist 4,3 á Richter en upptök hans voru um fjóra kílómetra vestan við Grindavík. Óskar Sævarsson, forstöðumaður safnsins, sagði höggið frá jarðskjálftanum hafa verið þungt og greinilegt að skjálftinn var öflugur.
Óskar lýsti skjálftanum sem svo að hann hafi komið sem högg beint undir húsið þar sem hann var. Skjálftinn hafi varað í skamman tíma. Hann sagðist ekki hafa fundið högg sem þetta í mörg ár, ef undan eru skilin Suðurlandsskjálftarnir.
Óskar hafði heyrt í nokkrum aðilum í Grindavík sem allir urðu varir við skjálftann en tjón virðist ekki hafa orðið.