Mun betri niðurstaða en ráðgert var hjá Reykjanesbæ
Leigueignir aftur komnar í eigu Reykjanesbæjar
Rekstrarniðurstaða bæjarsjóðs Reykjanesbæjar var jákvæð um 3,6 milljarða króna á síðasta ári í stað 3 milljarða króna halla sem áætlanir gerðu ráð fyrir. Þetta kemur fram í ársreikningi bæjarsjóðs, en hann ásamt ársreikningum tengdra stofnana var lagður fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn Reykjanesbæjar þriðjudaginn 19. apríl. Heildarniðurstaða samstæðu A og B hluta var jákvæð um 317 milljónir króna en áætlanir gerðu ráð fyrir 2,5 milljarða króna halla, segir í frétt frá Reykjanesbæ.
Heildartekjur samstæðu A og B hluta voru 28,1 milljarður króna og rekstrargjöld 23,2 milljarðar króna. Rekstrarniðurstaða fyrir afskriftir, fjármagnsliði, skatta og hlutdeild minnihluta nam 4,8 milljörðum. Að teknu tilliti til þeirra liða var niðurstaðan, eins og áður sagði, jákvæð um 317 milljónir króna í stað áætlaðs 2,5 milljarða króna halla.
Heildartekjur A-hluta bæjarsjóðs námu 21,8 milljörðum króna. Þar á meðal er reiknuð tekjufærsla vegna uppgjörs leigusamninga við Eignarhaldsfélagsið Fasteign að fjárhæð 3,5 milljarða króna en á árinu voru allar eignir sem áður voru leigðar af félaginu keyptar til baka og leiguskuldbinding felld niður. Þar með lauk tveggja áratuga vegferð Fasteignar.
Rekstargjöld bæjarsjóðs námu 18,2 milljörðum króna. Rekstarniðurstaða fyrir afskriftir og fjármagnsliði var jákvæð um 3,6 milljarða króna en að teknu tilliti til þeirra liða var niðurstaðan jákvæð um 2,1 milljarð króna.
Áætlun ársins gerði hins vegar ráð fyrir 3 milljarða halla á bæjarsjóði og er þetta því mun betri niðurstaða en gert var ráð fyrir. Munar þar mest um áðurnefnda tekjufærslu vegna uppgjörs leigusamninga.
Eignir samstæðu A og B hluta nema 73,6 milljörðum og A-hluta bæjarsjóðs 40 milljörðum.
Skuldaviðmið A hluta bæjarsjóðs skv. reglugerð 502/2012 er 102% og samstæðu A og B hluta 120%.