MSS: Ótrúleg þróun eftir bankahrun
Þróunin og aukningin í starfsemi Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum, MSS hefur verið gríðarleg og sérstaklega eftir bankahrun. Nemendastundir hafa þrefaldast síðan 2008. Í skýrslu frá Hagstofu Íslands kemur fram að á landinu öllu sóttu árið 2010 um 70.200 manns á aldrinum 16-74 sér einhvers konar fræðslu, annað hvort í skóla eða aðra fræðslu með leiðbeinanda, 31,4% landsmanna. Frá árinu 2003 hefur hlutfall landsmanna á aldrinum 16-74 sem stundar einhvers konar menntun heldur farið hækkandi. Hlutfallið var 28,3% árið 2003 en fór hæst í 33,1% árið 2006. Guðjónína Sæmundsdóttir, forstöðukona MSS segir að meðal nýjunga sé þróun á smiðjum sem byggjast að mestu leyti á verklegu námi.
- Hvernig hefur þróunin verið í fjölgun nemenda sem sækja nám og námskeið hjá MSS á undanförnum árum?
Þróunin hefur verið ótrúleg síðustu ár. Nemendastundir hafa ríflega þrefaldast síðan árið 2008 og það er ekkert lítið. Það sem hefur aðallega breyst er að einstaklingar eru að sækja í lengra nám og þá gjarnan nám sem fleytir þeim áfram í áframhaldandi nám. Menntastoðir hafa t.d. verið mjög vinsælar en þeir sem fara í Menntastoðir geta haldið áfram í Háskólabrú Keilis eða aðrar frumgreinadeildir háskólanna. MSS hefur þróað Menntastoðir og er það kennt núna í staðnámi sem er dagnám í 6 mánuði. Einnig kennum við Menntastoðirnar í dreifnámi en þá mætir nemandinn einu sinni í viku í 1 ár. Síðan hófum við fyrir ári síðan að kenna námið í fjarnámi en þá mætir nemandinn eina helgi í mánuði en að öðru leyti fer námið fram í gegnum tölvutæknina. Námið hefur verið gríðarlega vinsælt enda góður grunnur.
En það eru ekki allir sem treysta sér beint í Menntastoðirnar og koma þá gjarnan í Grunnmenntaskólann fyrst til að rifja upp og öðlast það sjálfstraust sem þarf til að halda áfram. Einnig höfum við sérstakt nám fyrir þá sem eru lesblindir en vilja hefja nám.
-Hvernig hefur verið staðið að þróun í framboði námsefnis og námskeiða?
MSS er í góðu samstarfi við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, aðrar símenntunarmiðstöðvar og aðra skóla. Yfirleitt hlustum við eftir því sem markaðurinn er að kalla á og reynum að bregðast við því.
Við erum að kenna námsleiðir sem hafa verið þróaðar af símenntunarmiðstöðvunum í samvinnu við aðila atvinnulífsins.
-Hvað með framtíðina hjá MSS, er eitthvað nýtt á prjónunum?
MSS hefur verið að þróa smiðjur sem byggjast að mestu leyti á verklegu námi. Við fórum af stað með Umhverfissmiðju – hellu, steina og garðyrkju í vor og er annar hópurinn að fara í gegnum námið þessa dagana. Varðandi það nám erum við í góðu samstarfi við Garðyrkjuskólann. Einnig erum við með annan hóp í Hljóðsmiðju sem er nám þar sem nemendur eru að læra hljóðupptökur og erum við þar í samstarfi við Geimstein. Við höfum margar hugmyndir m.a. varðandi margmiðlun s.s. kvikmyndagerð, grafíska hönnun o.fl. Einnig leggjum við mikla áherslu á að tengja saman nám og verkþjálfun í fyrirtækjum og þar höfum við verið að feta okkur áfram og munum leggja meiri áherslu á það á næsta ári.