Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

MSS opnar útibú í Grindavík
Laugardagur 12. júní 2010 kl. 11:10

MSS opnar útibú í Grindavík

Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum (MSS) opnaði á dögunum útibú í Grindavík.
Starfsemi MSS hefði aukist gríðarlega undanfarin ár og því þótti tímabært að auka námskeiðahald í Grindavík, að sögn Guðjónínu Sæmundsdóttur, forstöðumanns MSS. Fisktækniskóli Suðurnesja opnaði fyrir stuttu í Grindavík. Eru þessar tvær stofnanir undir sama þaki að Víkurbraut 56 en ætlunin er að samnýta þannig húsnæði og starfsfólk.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

MSS hefur ráðið Guðrúnu Jónu Magnúsdóttur til að sinna námskeiðahaldi og náms- og starfsráðgjöf í Grindavík. Guðrún segir stefnt að því að bjóða upp á nám næsta haust  í Háskólastoðum, Færni í Ferðaþjónustu, Upplýsingatækni og Sjálfsstyrkingu fyrir ungar konur á öllum aldri. Þá sé verið að skipuleggja áhugaverð tómstundanámskeið af ýmsu tagi, s.s. prjóna- og saumanámskeið, leðurtöskugerð, tarrotlestur og tungumálanámskeið í ensku og norsku, svo fátt eitt sé nefnt.

Guðrún Jóna, sem er náms- og starfsráðgjafi að mennt, mun bjóða upp náms- og starfsráðgjöf og einnig verður námskeiðið Árangursríkari starfsleit sem hefur verið í boði hjá MSS í eitt ár í Reykjanesbæ líka í boði í Grindavík með haustinu. Á því námskeiði gera einstaklingar sína færnimöppu, ferilskrá, fara í áhugasviðsgreiningu og fá hagnýt ráð í starfsleitinni.

Nanna Bára Maríasdóttir er einnig nýr starfsmaður hjá MSS í Grindavík og mun hún sinna sí- og endurmenntun í sjávarútvegi. Hún er líka að hluta til starfsmaður Fisktækniskólans. Hún mun skipuleggja nám í sjávarútvegi og í haust verður m.a. í boði fluguhnýtinganámskeið og flökun laxa og silunga. Unnið er þessa dagana að skipulagningu á fleiri námskeiðum. Með ráðningu sérstaks starfsmanns til að sinna sí- og endurmenntun í sjávarútvegi er ætlunin að efla þennan málaflokk til muna, að sögn Guðjónínu Sæmundsdóttur.

Aðstaða fyrir nemendur í fjarnámi mun líka flytjast í nýtt húsnæði  en í dag geta Grindvíkingar stundað fjarnám við Háskólann á Akureyri í fjölmörgum greinum s.s. í viðskiptafræði, kennaranámi, iðjuþjálfun o.s.frv.
MSS verður með opið hús 15. júní kl. 14:00 – 18:00 og geta Grindvíkingar komið og kynnt sér hvað verður í boði í haust hjá skólanum.
Með opnun útibús í Grindavík er vonast til að Grindvíkingar muni sækja meira í menntun bæði í almennum greinum, sí- og endurmenntun og fjarnám á háskólastigi.

Mynd: Guðrún Jóna Magnúsdóttir, Guðjónína Sæmundsdóttir og Nanna Bára Maríasdóttir við nýja starfsstöð MSS í Grindavík.