MSS hlýtur gæðavottun
Þann 11. febrúar sl. fékk Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum ásamt 5 öðrum símenntunarmiðstöðvum afhenta staðfestingu á að miðstöðin hafi staðist gæðavottun skv. European Quality Mark (EQM) gæðaviðmiðunum. Með gæðavottun EQM er staðfest að starfsemin stenst evrópskar kröfur um gæði fræðslustarfsemi. Þær miðstöðvar sem fengu vottun ásamt MSS eru SÍMEY-Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar, Austurbrú, Fræðslunet Suðurlands, Fræðslumiðstöð Vestfjarða og Símenntunarmiðstöðin Vesturlandi.
Árið 2011 gerði Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA) samning við vottunarstofu um gæðavottunarúttekt og bauð fræðslu- og símenntunarmiðstöðvum, sem eru í samstarfi við FA, að sækja um fyrstu úttektirnar. Nú hafa þrettán miðstöðvar staðist gæðaúttekt og hlotið vottun skv. EQM gæðamerkinu.
Fræðslumiðstöð atvinnulífsins veitir gæðavottunina en FA hefur unnið að þróun gæðaviðmiða í fræðslustarfi fyrir fullorðna á liðnum árum. EQM vottunarferlið byggir á tveimur grundvallaraðferðum gæðastjórnunar, sjálfsmati og eftirliti og með vottuninni er staðfest að starfsemin uppfyllir viðmið EQM en MSS var tekið út af vottunaraðilum haustið 2012.
Þetta er mikil viðurkenning á starfsemi okkar og það ferli sem við erum búin að vera að vinna eftir undanfarin 2 ár hefur eflt okkur og bætt segir Guðjónína Sæmundsdóttir forstöðumaður MSS og viðurkenningin hvetur okkur líka til að halda áfram á sömu braut.