MSS hlaut starfsmenntaverðlaunin 2007
Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum hlaut á föstudag starfsmenntaverðlaun Starfsmenntaráðs og Menntar. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, afhenti verðlaunin við hátíðlega athöfn, en Guðjónína Sæmundsdóttir, forstöðukona Miðstöðvar símenntunar, tók við þeim fyrir hönd mistöðvarinnar.
Þau hlaut miðstöðin í flokki skóla og fræðsluaðila fyrir frumkvöðlastarf í fullorðinsfræðslu hér á landi. Í umsögn með verðlaununum er stiklað á stóru í því góða starfi sem MSS hefur unnið í fræðslumálum á Suðurnesjum frá stofnun árið 1997.
Þar á meðal má nefna að með tilkomu MSS jókst verulega aðgengi fullorðinna að námi auk þess sem miðstöðin hefur staðið fyrir öflugri starfs- og námsráðgjöf. Þá hefur einnig verið gert sérstakt átak til að ná til fullorðinna einstaklinga á Suðurnesjum sem eiga við lestrar- og skriftarerfiðleika að glíma og þeim veitt greining og ráðgjöf.
Víkurfréttir tóku Guðjónínu tali og spurðu út í verðlaunin og komandi verkefni hjá MSS.
Hvað er það sem trygir ykkur þessi verðlaun?
Við höfum verið í ákveðinni forystu meðal símenntunarmistöðva og unnið að allskonar verkefnum sem snúa að því að ná til þeirra sem hafa minnstu menntunina. Við höfum til dæmis haft frumkvæði að verkefnum fyrir lesblinda og verið í fararbroddi fyrir þann hóp. Svo höfum við líka staðið fyrir fjarnámi sem hefur gríðarlega mikil áhrif.
Við höfum bæði verið að vinna í því að auka menntun á háskólastigi sem og að reyna að ná til þeirra sem minnsta menntun hafa og reyna að hjálpa þeim að komast fyrstu skrefin í menntakerfinu, þó við séum ekki sjálf að útskrifa þau.
Það hlýtur að vera gott fyrir MSS að fá þessi verðlaun.
Já, þetta er mjög góð viðurkenning og í menntageiranum er þetta með því besta sem gerist hér á landi.
Er eitthvað nýtt að gerast hjá ykkur í MSS á næstunni?
Það er alltaf eitthvað nýtt að gerast hjá MSS á hverri önn, en við ætlum að halda áfram að sinna því sem við erum þegar á gera og efla okkur og bæta á þeim sviðum. Við erum m.a. að bæta hjá okkur þjónustuna vegna lesblindu þar sem við stefnum á frekari þróun. Þar erum við að fara í gang með lengri námskeið sem eru eins konar brú upp í framhaldsskóla, eða Keili ef því er að skipta.
Svo er náms- og starfsráðgjöfin er að eflast mikið og svo vonumst við til að skriður komist á raunfærnismatið á næsta ári, en í því felst að þeir sem hafa verið starfandi lengi í t.d. iðngreinum fái sína færni og það sem þau hafa lært á starfsæfinni, metið inn í skólakerfið. Þannig þurfir þú ekki að setjast á skólabekk og læra það sem þú ert kannski búinn að starfa við í tuttugu ár. Þannig geturðu jafnvel endað með sveinspróf með því að taka einhver fög. Við vorum þátttakendur í tilraunaverkefni um þetta mál en það er nú í umsögn í ráðuneytinu og við erum því bara að bíða eftir að fá grænt ljós þaðan. Það er hins vegar alltaf eitthvað spennandi í gangi hjá okkur.