Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Fréttir

MSS býður upp á endurmenntun atvinnubílstjóra
Laugardagur 23. mars 2019 kl. 05:00

MSS býður upp á endurmenntun atvinnubílstjóra

Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum býður upp á aukið námskeiðsframboð með tilkomu vottunar sem Samgöngustofa hefur nýverið veitt MSS til að halda úti endurmenntun atvinnubílstjóra. Námið er fyrir bílstjóra sem aka stórri bifreið í ökuréttindaflokki D1 og D til farþegaflutninga í atvinnuskyni og í flokki C1 og C til vöruflutninga í atvinnuskyni. Endurmenntunina skulu atvinnubílstjórar taka á fimm ára fresti til að viðhalda atvinnuréttindum sínum. Að sögn Smára Þorbjörnssonar verkefnastjóra hefur nokkur eftirspurn verið eftir námsframboði sem þessu og leggur MSS áherslu á að svara kalli atvinnulífs og samfélagsins m.a. með þessum hætti.

Námið skiptist í þrjá hluta, kjarna, valkjarna og valfög. Allir þátttakendur í endurmenntun taka kjarnafögin þrjú; lög og reglur, umferðaröryggi og vistakstur en þau eru grunnur námsins. Þátttakendur geta svo valið á milli námskeiðanna farmflutningar eða vöruflutningar í valkjarnafögum. Í valfögum geta svo þátttakendur valið á milli námskeiðanna skyndihjálp eða faglegi þátturinn. ,,Við erum afar ánægð með að hafa tekist að setja þetta nám saman og geta þjónustað þennan hóp hér á svæðinu, við vonumst til þess að námið hljóti góðan hljómgrunn á Suðurnesjum og hlökkum til að taka á móti flottum hópi atvinnubílstjóra hér í MSS“ segir Smári.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Námið er eins og áður sagði vottað af Samgöngustofu en námskeiðin eru öll viðurkennd af þeirri stofnun, þá er sérstaklega passað uppá að gæði námsins séu með besta móti og að kennsla og framkvæmd séu í nákvæmum tengslum við hæfniviðmið og markmið í náminu. Áhugasömum er bent á að kíkja við á heimasíðu MSS þar sem allar nánari upplýsingar er að finna, auk þess sem hægt er að skrá sig á þau námskeið í boði eru. ,,Eins er hægt að hafa samband ef einhverjar vangaveltur eða spurningar vakna eða kíkja við hjá okkur í MSS, við erum alltaf með heitt á könnunni og tökum vel á móti öllum sem til okkar leita“ segir Smári að lokum.