Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Mótmæltu aðgerðaleysi bæjaryfirvalda með því að loka Vesturgötu
Laugardagur 1. desember 2007 kl. 14:11

Mótmæltu aðgerðaleysi bæjaryfirvalda með því að loka Vesturgötu

Mikill óhugur er hjá íbúum í Reykjanesbæ eftir að ekið var á 4 ára dreng á Vesturgötu síðdegis í gær en ökumaðurinn flúði af vettvangi. Í morgun tóku íbúar við götuna sig saman og mótmæltu aðgerðaleysi bæjaryfirvalda með því að loka götunni en þeir hafa margs sinnis vakið athygli á hraðakstri á henni.

Drengurinn er mikið slasaður og er haldið sofandi í öndunarvél á Landsspítalanum. Vitni sá dökka skutbifreið aka á hann síðdegis í gær og halda síðan för sinni áfram. Lögreglan hefur fengið fjölda ábendinga um bíla en rannsókn hefur ekki borið árangur.

Sturlaugur Ólafsson íbúi við Vesturgötu sagði að búið væri að senda bæjarstjórn ítrekað ábendingar í tölvupósti og símleiðis. Í nýlegum tölvupósti spurði Sturlaugur hvort bíða þyrfti eftir stórslysi til að eitthvað væri gert. Íbúar við götuna voru slegnir eftir aburð gærdagsins og segja að ekki sé hægt að bíða lengur eftir aðgerðum. Ná verði niður ökuhraða á götunni með öllum tiltækum ráðum.

Óskar Halldórsson, varðstjóri hjá Lögreglunni á Suðurnesjum, sagði að fjöldi ábendinga hafi borist og þær hafi allar verið kannaðar en án árangurs. Leit að bifreiðinni og ökumanni hennar mun halda áfram en lögreglan leitaði í gærkvöldi og í dag og hefur rætt við fjölda manns.


Myndir: Frá lokun Vesturgötu í morgun. Neðri myndin er frá slysstað í gærkvöldi. Ljósmyndir: Hilmar Bragi Bárðarson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024