Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fimmtudagur 25. október 2001 kl. 09:31

Mótmæla staðsetningu nýs iðnaðarhverfis

„Fasteignaverð mun lækka“, segja íbúar

Fjölmargir íbúar í Vallahverfi í Keflavík hafa mótmælt byggingu nýs iðnaðarhverfis sem stendur til að reisa ofan við byggðina. Þetta nýja hverfi hefur hlotið nafnið Borgarhverfi en það afmarkast af Aðalgötu að sunnan, Reykjanesbraut neðan við flugstöðinan að austan og teygjir sig síðan í átt að norðurenda bæjarins. Reykjanesbær auglýsti í lok septembermánaðar, tillögu að breytingu á aðalskipulagi og deiliskipulagi. Mótmælalistum á að skila fyrir 9. nóvember.

Efri mynd: Borgarhverfi sést hér teiknað inn á loftmynd til hægri, ofanvið er flugstöðin og Iðavellir til vinstri.
Þar sem hverfið á að rísa er nú opið svæði sem margir hafa nýtt til útivistar í áranna rás en þar eru m.a. náttúruperlur eins og Rósaselstjarnir. Leikskólarnir hafa t.d. verið duglegir viði að fara með börnin þangað í berjatýnsluferðir á haustin og mikil áhersla hefur verið lögð á skógrækt á þessu svæði. Á mótmælaskjalinu, sem nú gengur á milli íbúa, kemur fram að þeir óttast að hverfið verði sóðalegt og hættulegt börnum og að fasteignaverð húseigna í Vallahverfi, lækki þar sem fasteignaverð íbúða sem liggur að iðnaðarhverfum er lægra en almennt gerist. Íbúar áskilja sér bótarétt ef skipulagsbreytingin verður til þess að fasteignaverð lækkar. Þeir gera jafnframt kröfu um að svæðið verði skipulagt með það að sjónarmiði, að gera það aðgengilegra fyrir almenning.
Að sögn íbúa í hverfinu, eru flestir mjög óhressir með þessa tillögu. „Þessi breyting felur m.a. í sér aukna umferð um Vesturgötu og Eyjavelli sem síður en svo þolir það og nýr vegur er staðsettur næst efstu byggð sem virðist við fyrstu sýn vera algjör óþarfi þar sem innakstur í þetta nýja hverfi mætti að vera t.d. frá Reykjanesbraut. Í tillögunum er gert ráð fyrir því að hverfið verði lagað að náttúrinni en menn hafa litla trú á því að það gangi eftir með hliðsjón af þeim iðnaðarhverfum sem nú þegar eru til, því þau eru ekki til fyrirmyndar svo ekki sé meira sagt“, sagði íbúi í Vallahverfi í samtali við VF.
Í mótmælaskjalinu hafa íbúar sett saman greinagerð þar sem þeir gera nánar grein fyrir sínu sjónarmiði. Þar stendur m.a.: „Við höfum skilning á því að í hverju sveitarfélagi er þörf á öflugri atvinnustarfsemi, en við skipulag bæja þarf einnig að hafa aðra hagsmuni bæjarbúa í huga. Við óskum því eftir að iðnaðarhverfinu verði fundinn annar staður í bæjarlandinu eða leitað verði samstarfs við önnur sveitarfélög, t.d. Gerðahrepp, ef skipulagsyfirvöld telja nauðsynlegt að koma upp öðru flugtengdu iðnaðarhverfi, en lagt hefur verið af stað með á Þjónustusvæði Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024