Mótmæla seinagangi yfirvalda
Hælisleitendurnir sem gengu frá verustað sínum í gistiheimilinu Fiti niður í miðbæ Reykjanesbæjar í dag og mótmæltu seinaganginum í afgreiðslu mála, segja starfshætti Útlendingastofnunar ómannúðlega. Mennirnri eru víðsvegar að, t.d. frá Írak, Íran, Alsír, Georgíu og Afganistan.
Við erum búin að bíða hér allt upp í níu mánuði eftir að fá dvalarleyfi,“ sagði Afganinn Riaz Khan í samtali við Víkurfréttir í dag. „Yfirvöld gera hins vegar ekkert. Við viljum bara fá að koma okkur fyrir hér á Íslandi og fara að vinna eins og annað fólk.“
Í yfirlýsingu sem mennirnir höfðu með sér sögðu þeir að margir þeirra 24 hælisleitenda sem dveldu hér í Reykjanesbæ væru orðnir veikir vegna slæms aðbúnaðar. Þeir vildu með þessum aðgerðum vekja athygli Íslendinga á aðstæðum sínum.
Þar kom einnig fram að þeir skildu ekki hvers vegna mál þeirra tækju svo langan tíma á meðan Bobby Fischer fengi sérstaka meðferð til að komast til landsins.
Mennirnir átta settust niður við gatnamót Túngötu og Tjarnargötu með kröfuspjöld sín og sátu þar um stund áður en þeir héldu aftur heim á leið.
Félagsþjónusta Reykjanesbæjar sér um uppihald hælisleitendanna samkvæmt samningi við Úlendingastofnun og segir Hjördís Árnadóttir, félagsmálastjóri bæjarins, að hún hafi ekki fengið kvartanir frá þeim 24 hælisleitendum sem dvelja hér í bænum.
„Við skiljum að það er oft erfitt að bíða eftir úrlausn þessara mála og dagarnir lengi að líða, en við gerum okkar besta til að láta þeim líða sem best. Við höfum útvegað fólkinu húsnæði læknishjálp, sálfræðiaðstoð og þau fá frítt í sund og á bókasafnið. Við útveguðum þeim meira að segja einu sinni hjól þannig að við höfum ekki fengið kvartanir vegna aðbúnaðar þeirra.“
Hildur Dungal, forstjóri Útlendingastofnunar, sagði í samtali við Víkurfréttir að vissulega tækju þessi mál einhvern tíma en venjulega skipti biðin ekki mánuðum eins og er í verstu tilfellum hælisleitendanna sem Víkurfréttir ræddu við í dag.
„Þetta veltur mikið á því hvort fólkið er með skilríki eða hvort þau hafa komið í gegnum eitt af þeim löndum sem við erum í samstarfi við í þessum málum. Það þarf að sannreyna hvort viðkomandi sé sannanlega frá því landi sem hann heldur fram og hvort aðstæður hans séu þær sem hann segir. Svo eru líka öryggissjónarmið í þessu þar sem við viljum ekki fá hvern sem er inn í landið.“
Til að fá stöðu pólitískra fólttamanna þarf hælisleitandi að mæta ákveðnum kröfum sem tíundaðar eru í flóttamannasáttmála Sameinuðu Þjóðanna . Svo þarf mál viðkomandi að ganga í gegnum feril í samræmi við Dublinarsamninginn sem er samstarf helstu Evrópuþjóða í málefnum flóttamanna til að koma í veg fyrir misnotkun og hjálpa þeim sem þurfa svo sannarlega á hjálp að halda.
Síðustu 5 ár hefur enginn fengið pólitískt hæli hér á landi, en nokkrir hafa fengið tímabundið dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Fjöldi hælisleitenda hefur verið breytilegur ár frá ári en mikil aukning varð á umsóknum árið 2002 þegar 117 komu hingað til lands á þeim forsendum.
Varðandi aðbúnað í Reykjanesbæ sagði Hildur að hann væri með allra besta móti og mun betri en í nágrannalöndum.
VF-myndir/Þorgils - [email protected]