Mótmæla auknum álögum á barnafólk í Reykjanesbæ
Hópur dagmæðra og foreldra mætti fyrir framan skrifstofur Reykjanesbæjar til að mótmæla skerðingu á umönnunargreiðslum til foreldra.
Að sögn foreldra sem þarna voru mætt höfðu þeir heyrt að um 10 þús. kr. lækkun væri að ræða, úr 30 þús. í 20 þús. kr. Var hugmynd skotið til dagmæðra að þær tækju á sig helming skerðingarinnar þannig að lækkunin yrði 5 þús. kr. á foreldra. Einnig var bent á að skerðing væri í frístundaskólum. „Það er verið að fjölga lyklabörnum í bænum út af því,“ sagði ein dagmóðirin. „Ég veit til þess að átján krakkar eru hættir í frístundaskólanum í Holtaskóla. Foreldrarnir hafa ekki lengur efni á þessu. Það má ekki gleyma því að ungir foreldrar eru margir með erlend lán á bakinu vegna húsnæðiskaupa. Okkur finnst bæjarfélagið ekki vera að styðja við þá sem verst standa þessa dagana“.
Hjördís Árnadóttir, félagsmálastjóri kom og ræddi við hópinn og sagði að alls staðar væri verið að skera niður í rekstri bæjarfélagsins og þessar greiðslur hefðu verið hærri en í öðrum bæjarfélögum, m.a. vegna þess að bæjarfélagið vildi leggja áherslu á að vera fjölskylduvænn. „Við þurfum öll að taka á okkur einhverja skerðingu eftir útrásarveisluna, því miður,“ sagði hún.
Fólk í hópnum spurði hvort fleiri hefðu tekið á sig skerðingu í bæjarkerfinu. Hjördís sagði að flestir starfsmenn bæjarins eða þeir sem væru með meðalhá eða hæstu launin hefðu tekið á sig 10% lækkun. Hún sagði að félagsmálakerfið kostaði 500 millj. kr. á ári og 100 millj. færu í umönnunargreiðslur. Laun hjá bænum hefðu einnig verið lækkuð um 100 millj. króna.
Ein móðirin spurði um niðurskurðinn og hvort ekki mætti fresta einhverjum framkvæmdum. Fékk þau svör að svo væri. „Hvað með Hljómahöllina, ?“ spurði hún. „Hún verður kláruð,“ sagði Hjördís.
Hjördís félagamálastjóri ræddi við foreldra sem komu til að mótmæla.