Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Mótel Best stækkar við sig
Þriðjudagur 24. maí 2005 kl. 17:27

Mótel Best stækkar við sig

Mótel Best í Vogum hefur stækkað við sig en áður fyrr voru 15 herbergi til leigu en nú eftir stækkunina eru herbergin 31. „Við gerðum þetta til að standa straum af mikilli aðsókn og einnig svo hægt sé að taka við hópum,“ sagði Guðmundur Franz Jónasson einn eigenda Mótel Best. Herbergin 16 sem byggð voru eru öll með sérbaði en stækkunin hafði einnig í för með sér stækkun á morgunverðarsalnum sem er nú rúmir 100fm.

Mótel Best hóf starfsemi sína árið 2001 og hefur aðsóknin, að sögn Guðmundar, aukist jafnt og þétt síðan þá. „Þetta er aðallega erlent fólk sem gistir hjá okkur en það er fólk sem er að koma úr flugi eða er að fara í flug,“ sagði Guðmundur og bætti því við að sá hópur væri uppistaðan í hópi þeirra viðskiptavina.

„Við förum þá leið að við setjum okkur í spor ferðamannsins og gerum þetta mannlegt, herbergin eru mjög rúmgóð og í raun og veru eins og gott hótelherbergi,“ sagði Guðmundur en hann segir ferðamanninn sem kemur til Íslands mun afslappaðri en Íslendingar sem ferðast til útlanda. „Til okkar kemur fólk í morgunmat og nýtur þess að vera til og það er ekkert stress á þeim, við Íslendingar erum alltaf að drífa okkur svo mikið. Þeir sem til okkar koma gefa sér tíma í að fá sér góðan morgunmat því það er mikilvægur partur af fríinu hjá þeim.“
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024