Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Móta ferðamálastefnu fyrir Reykjanesbæ
Sunnudagur 13. nóvember 2016 kl. 06:00

Móta ferðamálastefnu fyrir Reykjanesbæ

Bæjarbúum gefinn kostur á að taka þátt í mótun stefnunnar

Unnið hefur verið að mótun ferðamálastefnu fyrir Reykjanesbæ síðan í vor á vegum ferðamálateymis. Drög að stefnunni voru lögð fram á fundi bæjarráðs í síðustu viku og á miðvikudaginn í næstu viku verður haldinn opinn fundur í Duus Safnahúsum þar sem íbúum og ferðaþjónustuaðilum gefst kostur á að kynna sér stefnuna og koma að mótun hennar. Að sögn Hrafhildar Ýrar Hafsteinsdóttur, verkefnastjóra ferðamála hjá Reykjanesbæ, skipar ferðaþjónustan æ stærri sess í bænum og því góð tímasetning núna til að móta stefnu í málaflokknum til framtíðar. „Það hefur verið mikil og jákvæð uppbygging hjá okkur. Reykjanesbær hefur ekki farið varhluta af fjölgun ferðamanna og ferðavenjur eru að breytast, mikið til okkur í vil og við erum að bregðast við því. Hér hefur fyrirtækjum í ferðaþjónustu fjölgað og fjölbreyttari afþreying er í boði. Við finnum því að gestir eru farnir að dvelja lengur á svæðinu.“

Undirbúningsvinna teymisins hefur gengið út á að gera stefnu bæjarins þannig úr garði að hún taki mið af þörfum heimamanna, sé atvinnuskapandi, efli þol umhverfisins, sjálfbærni og skilgreini vel hlutverk bæjarfélagsins í ferðaþjónustu. „Við vonum að sem flestir mæti á fundinn því við viljum fá að heyra hvernig bæði ferðaþjónar og almenningur vilja sjá bæinn sinn vaxa og dafna í tengslum við ferðaþjónustuna.“ Komist fólk ekki á fundinn en vill taka þátt í mótun stefnunnar þá er hægt að láta rödd sína heyrast með því að senda tölvupóst á netfangið [email protected].

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024