Morgunblaðið vill innanlandsflugið til Keflavíkurflugvallar
Morgunblaðið er þeirrar skoðunar, að tímabært sé að taka af skarið með það að Keflavíkurflugvöllur eigi í framtíðinni að þjóna innanlandsflugi og hefja undirbúning að því, að sú verði raunin. Að þessu leyti er blaðið sammála því, sem fram kom hjá Sturlu Böðvarssyni, samgönguráðherra, á fundi í Reykjanesbæ í fyrrakvöld, sem Hjálmar Árnason, formaður þingflokks Framsóknarflokksins, efndi til. Þetta kemur fram í leiðara blaðsins í dag. Hann er birtur hér orðréttur að neðan:
Smátt og smátt hefur orðið til víðtæk málefnaleg samstaða um að Reykjavíkurflugvöllur eigi að hverfa og það landrými, sem hefur farið undir hann, verði tekið til annarra nota. Þetta er í samræmi við niðurstöðu meirihluta þeirra, sem greiddu atkvæði fyrir nokkrum árum í kosningu meðal Reykvíkinga, sem borgarstjórnin efndi til fyrir nokkrum árum. Þar með er miklum áfanga náð í umræðum um framtíðarskipulag höfuðborgarinnar og nágrannasveita.
Eftir eru umræður um það, hvort flytja eigi innanlandsflug til Keflavíkurflugvallar eða byggja nýjan flugvöll nær höfuðborginni, sem mundi þjóna innanlandsflugi.
Landsbyggðarfólk hefur á allmörgum undanförnum árum lagzt á þá sveif, að byggja eigi nýjan flugvöll nær höfuðborginni en Keflavíkurflugvöllur er. Hefur þeirri skoðun verið lýst, að mikið óhagræði væri í því að hafa innanlandsflugvöll svo fjarri miðju höfuðborgarsvæðisins, sem Keflavíkurflugvöllur er. Miklar og snöggar breytingar í veðri valdi því, að stundum tefjist flug og stundum sé tekin snögg ákvörðun um að fljúga og af þeim sökum feli staðsetning innanlandsflugs á Keflavíkurflugvelli í sér mikið óhagræði fyrir íbúa landsbyggðarinnar. Þá sé ljóst að vegalengdin á milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkursvæðisins lengi mjög þann tíma, sem það taki landsbyggðarfólk að komast til höfuðborgarinnar.
Margt hefur breytzt á þeim tíma, sem þessar umræður hafa staðið. Höfuðborgarsvæðið hefur þanizt út. Það getur tekið jafn langan tíma að komast úr vesturbæ Reykjavíkur eða af Seltjarnarnesi til Kjalarneshluta höfuðborgarinnar eins og það tekur að aka frá Hafnarfirði til Keflavíkurflugvallar svo að dæmi sé tekið. Þegar farið er til Keflavíkurflugvallar er aðal vandinn sá að komast út úr þéttbýlinu. Um leið og komið er út úr Hafnarfirði tekur 15-20 mínútur að aka til Keflavíkur. Umræður um vegalengdir á höfuðborgarsvæðinu og þann tíma, sem tekur að ferðast um það, hafa öðlast alveg nýja vídd.
Reykjanesbrautin er að gjörbreytast. Nú eru komnar tvær akreinar á hana að hluta til. Allir sem þar fara um finna hvað í því felst mikil breyting og mikið öryggi. Verði heimilað að auka ökuhraðann í 110 km styttist sá tími enn, sem þessi ferð tekur.
Hins vegar er æskilegt að verði sú ákvörðun tekin að innanlandsflug skuli fara um Keflavíkurflugvöll verði jafnframt teknar ákvarðanir um að greiða fólki leið út úr mesta þéttbýlinu á höfuðborgarsvæðinu eða inn í það, ef svo ber undir. Það er meiri ástæða til að verja umtalsverðum fjármunum til þess en að byggja nýjan flugvöll fyrir innanlandsflug.
Morgunblaðið er þeirrar skoðunar, að tímabært sé að taka af skarið með það að Keflavíkurflugvöllur eigi í framtíðinni að þjóna innanlandsflugi og hefja undirbúning að því, að sú verði raunin. Að þessu leyti er blaðið sammála því, sem fram kom hjá Sturlu Böðvarssyni, samgönguráðherra, á fundi í Reykjanesbæ í fyrrakvöld, sem Hjálmar Árnason, formaður þingflokks Framsóknarflokksins, efndi til.
Það kostar mikla fjármuni að byggja nýjan flugvöll fyrir innanlandsflug nær höfuðborginni. Þeim fjármunum væri betur borgið til frekari samgöngubóta á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu.