Mörgum íþróttamótum frestað vegna veðurs
Lokadegi meistaramóta flestra golfklúbba á Íslandi var frestað til morgundagsins vegna roks og rigningar í dag. Kylfingar í Golfklúbbi Suðurnesja hófu leik kl. 8 í morgun í miklu roki og rigningu, svo vont var veðrið að golfpokar og kerru fuku um koll. „Það var ekki stætt í Leirunni“, sagði einn þeirra sem þurftu að fara snemma út í morgun. Eftir nokkra umhugsun ákváðu mótshaldarar að fresta lokadegi meistaramóts klúbbsins til morgundagsins. Örn Ævar Hjartarson er með örugga forystu í meistaraflokki karla en Rut Þorsteinsdóttir í kvennaflokki. Vitað er um að fleiri íþróttamótum hafi verið frestað í dag vegna stífrar austanáttar 13-18 metrum á sekúndu og ofankomu. Kylfingar og boltasparkarar verða því að bíða morgundagsins til að ljúka mótum sínum.