Mörg umferðaróhöpp og margir hraðir á brautinni
Nokkuð var um umferðaróhöpp í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum í vikunni.
Þriggja bifreiða árekstur varð á Njarðarbraut þegar bifreið var ekið aftan á aðra sem þá hafnaði á þriðju bifreiðinni sem var kyrrstæð. Tveir kenndu verkja eftir óhappið en ekki var um meiri háttar meiðsl að ræða.
Þá varð umferðaróhapp, einnig á Njarðarbraut, þegar bifreið var ekið inn í hlið annarrar. Engin meiðsl urðu á fólki.
Ökumaður ók svo út af á Norðurljósavegi og var bifreiðin óökuhæf eftir. Ökumann sakaði ekki.
Á annan tug ökumanna voru kærðir fyrir hraðakstur. Sá sem hraðast ók mældist á 131 km hraða á Reykjanesbraut þar sem hámarkshraði er 90 km. Þá voru nokkrir teknir úr umferð vegna gruns um akstur undir áhrifum vímuefna og fáeinir óku sviptir ökuréttindum.