Mörg tækifæri í tengslum við alþjóðaflugvöllinn
Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum í samstarfi við Hacking Hekla og öfluga aðila á Reykjanesi bjóða heimamönnum og öðrum landsmönnum á hugarflugsviðburð til að móta hugmyndir og verkefni sem styðja við sjálfbæra framtíð svæðisins. Hvar liggja tækifærin í nýsköpun og aukinni þjónustu í tengslum við alþjóðaflugvöll, ferðaþjónustu og þjónustu við farþega og flug?
Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum, í góðu samstarfi við Hacking Hekla undirbúa lausnamótið Hacking Reykjanes sem fer fram dagana 17.-19. mars. Hacking Hekla er samstarfsvettvangur og fyrsta röð lausnamóta fyrir landsbyggðina sem ferðast hringinn í kringum landið. Vettvangurinn Hacking Hekla varð til 2020 og hélt fyrsta lausnamótið á Suðurlandi það haust og í kjölfarið Hacking Norðurland vorið 2021 og Hacking Austurland haustið 2021.
Lausnamót er einskonar hugarflugsviðburður nýrra hugmynda og fer að mestu fram á netinu í gegnum samsköpunarlausnina Hugmyndaþorp. Á lausnamótinu verður markmiðið að vinna að sjálfbærri framtíð í nýtingu auðlinda á Reykjanesi og verða lagðar fram fjórar áskoranir í samstarfi við bakhjarla á svæðinu til að ná því markmiði. Í meðfylgjandi myndbandi fer Pálmi framkvæmdastjóri Kadeco, Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar yfir tækifærin í tengslum við alþjóðaflugvöllinn.