Fréttir

Mörg sveitarfélög þurfa að reiða sig á samstarf
Reykjanesbær er fjölmennasta sveitarfélagið með sína liðlega 17 þúsund íbúa, en það fámennasta eru Vogar með um 1.200 íbúa. Myndin er úr Reykjanesbæ. VF-mynd: HBB
Föstudagur 17. febrúar 2017 kl. 09:40

Mörg sveitarfélög þurfa að reiða sig á samstarf

— um úrlausn ýmissa verkefna

Verkefnastjórn um eflingu sveitarstjórnarstigsins boðaði fulltrúa sveitarfélaganna á Suðurnesjum til samráðsfundar fyrr í vikunni. Samkvæmt verkefnaáætluninni eru megin markmið verkefnisins að leggja fram tillögur sem m.a. stuðla að stærri, öflugri og sjálbærum sveitarfélögum; breyttri verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga; markvissari samskiptum ríkis og sveitarfélaga; nýtingu rafrænnar tækni við stjórnsýslu og lýðræðislegri þátttöku íbúa í stefnumörkun og ákvarðanatöku á öllum sviðum.
 
Fundurinn var ágætlega sóttur og góðar umræður voru um málefnið. Það er athyglisverð staðreynd að sveitarfélögin í landinu eru 74 talsins, en þeim hefur fækkað talsvert frá því þegar þau voru flest. 
 
Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri í Vogum, er með pistil um fundinn í vikulegu fréttabréfi sem hann gefur út í Vogum: „Á okkar svæði er Reykjanesbær fjölmennasta sveitarfélagið með sína liðlega 17 þúsund íbúa, en það fámennasta eru Vogar með um 1.200 íbúa. Um 43 sveitarfélög í landinu hafa færri íbúa en Vogar, sem segir heilmikið um hversu mörg sveitarfélög þurfa að reiða sig á samstarf um úrlausn ýmissa verkefna, sem fámenn sveitarfélög hafi ekki burði til að sinna. Umræðan um eflingu sveitarstjórnarstigsins er þýðingarmikil, ekki síst ef takast á að færa fleiri verkefni frá ríkinu til sveitarfélaganna“.
Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024