Mörg hundruð ný störf á Keflavíkurflugvelli á árinu
Stórframkvæmdir Isavia fyrir tólf milljarða króna að hefjast. Skapa 300 til 700 störf á byggingartíma. Fleiri störf verða til með nýjum rammsamningum við fjölda fyrirtækja á Suðurnesjum. „Mikilvægt að geta brugðist hratt við eftirspurn flugfélaga og ferðamanna eftir Covid-19,“ segir forstjóri Isavia
Framkvæmdir á vegum Isavia á þessu ári munu skapa frá 300 störfum þegar minnst verður upp í um 700 störf yfir sumarið. Framkvæmdakostnaður við sex mis stórar framkvæmdir hefjast á næstu mánuðum nemur um tólf milljörðum króna en Isavia fékk nýlega fimmtán milljarða króna aukið hlutafé frá ríkinu. Þá munu verða til fjöldi nýrra starfa í kjölfar nýrra rammasamninga Isavia við verktakafyrirtæki og iðnaðarmenn en fyrirtæki á Suðurnesjum voru í efstu sætunum þar í tíu af fjórtán liðum. Þetta kom fram á vetrarfundi Atvinnuþróunarfélagsins Heklunnar og Markaðsstofu Reykjaness.
Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia fór yfir stöðu mála hjá Isavia á Keflavíkurflugvelli en hann sagði gríðarmikla hagsmuni tengda árangursríkum viðsnúningi út úr Covid-19. Miklir möguleikar felist í því að bregðast við aukinni eftirspurn í flugi tiltölulega hratt á Keflavíkurflugvelli. Óvissa ríki þó enn í dag um hvenær létt verði ferðatakmörkunum en Isavia gerði ráð fyrir síðasta haust að það gæti gerst í byrjun apríl 2021. Í dag sé ólíklegt að það gangi eftir. Sveinbjörn sagði að allar líkur bentu þó til þess að Ísland gæti orðið mjög vinsæll áfangastaður eftir Covid-19 og tal við erlend flugfélög benti allt til þess að eftirspurnin verði mikil. Því væri mikilvægt að geta brugðist hratt við. Isavia hefur eyrnamerkt um 500 milljónir króna í markaðsstuðning fyrir flugfélög sem verða notaðar til að deila áhættu með þeim sem gæti hjálpað félögunum að hefja flug fyrr en þau áætla.
Fyrir hverja eitt þúsund farþega verða til 0,95 bein störf á flugvellinum. „Það eru gríðarmiklir hagsmunir tengdum árangursríkum viðsnúningi út úr Covid-19. Það eru sameiginlegir hagsmunir allra að ná að keyra farþegaaukninguna í gang um leið og hún hefst, hamra járnið um leið og það fer að hitna. Það eru mikil tækifæri framundan,“ sagði Sveinbjörn en fimmtán milljarða króna hlutafjáraukning gerir Isavia mögulegt að hefja framkvæmdir á ný sem verði mannfrekar en bæti einnig aðstöðuna á Keflavíkurflugvelli. „Hlutafjáraukningin er til að bæta félaginu það tjón sem það hefur orðið fyrir vegna Covid-19. Stórframkvæmdir eru að hefjast á ný sem mun hafa gríðarlega jákvæð áhrif fyrir atvinnulífið. Við erum að fara í framkvæmdir sem munu auka skilvirkni og samkeppni flugvallarins til framtíðar. Það verða til mikil umsvif vegna sex framkvæmda sem eru að fara í gang á þessu ári en heildarkostnaður þeirra nemur um tólf milljörðum króna.“
Um er að ræða nýja viðbyggingu austan megin við norðurbyggingu flugstöðvarinnar, um tíu þúsund m2 að flatarmáli auk endurgerðar á fjögur þúsund m2 á núverandi byggingu. Sveinbjörn segir að þetta verði keyrt hratt af stað og verði lokið 2022. Minni framkvæmd verður við suðurbyggingu til austurs en fjöldi starfa sem tengjast beint við þessar tvær framkvæmdir verða frá 100 til 350 á framkvæmdatímanum.
Tvær framkvæmdir verða við flugbrautir sem munu skapa 130 til 250 störf á verktímanum. Þær hefjast líka í sumar og ljúka á árinu. Þá eru verkefni í vegaframkvæmdum við flugstöðina sem munu skapa allt að 50 störf og mun dreifast út árið.
Verkefnin verða öll boðin út. Sveinbjörn segir að reynsla sýni að um helmingur þessara starfa munu verða til á Suðurnesjum, sama hvaða verktakar fái verkefnin. Þá nefndi hann að um áramótin hafi rammsamningar við iðnaðarmenn og verktaka verið endurnýjaðir í fjórtán liðum eftir útboð. Þar eru Suðurnesjafyrirtæki í efstu sætunum í tíu af fjórtán flokkum. Ljóst er að fjöldi óbeinna starfa verður til vegna þeirra umsvifa. Miðað við reynslu á öðrum flugvöllum sé ekki ólíklegt að það verði til hátt 100 til 200 ný óbein störf fyrir utan flugvöllinn vegna framkvæmdanna í rammasamningunum.
Sveinbjörn benti á að Keflavíkurflugvöllur væri mikilvægur fyrir nærumhverfið og á hinn bóginn væri mikilvægt að sveitarfélögin geti uppfyllt þarfir alþjóðaflugvallar. Yfir 50 fyrirtæki eru með leigusamninga við Isavia. Einungis 12% starfsmanna í á flugvellinum eru starfsmenn Isavia.
„Við erum gríðarlega ánægð að hafa fengið þessa fjármögnun og þannig tryggt þessi verkefni sem mun hafa mikil áhrif út í samfélagið. Fyrir árin 2022 til 2023 er gert ráð fyrir svipuðum fjölda starfa við framkvæmdir. Ofan á þetta eru mörg viðhaldsverkefni í vinnslu sem flest eru keypt í gegnum rammasamninginn. Hlutafjáraukningin mun hafa mjög góð áhrif inn í atvinnulífið á Suðuresjum strax á þessu ári,“ sagði Sveinbjörn.