Mörg fyrirtæki í áhugaverðri starfsemi
„Reykjanesbæ er eitt stærsta atvinnusvæði landsins og það var gott að koma og taka aðeins púlsinn á nokkrum stöðum. Það er ljóst að áskoranir eru margar. Til framtíðar litið er mikilvægt að styrkja fjölbreytni atvinnulífsins á svæðinu en það var mjög gott að taka samtalið á nokkrum stöðum enda mörg áhugaverð fyrirtæki í Reykjanesbæ,“ sagði Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar sem heimsótti nokkur fyrirtæki í bæjarfélaginu í síðustu viku. Með henni voru m.a. bæjarfulltrúar og félagar úr Samfylkingunni í Reykjanesbæ.
Kristrún segir að það hafi komið skemmtilega á óvart að heimsækja nokkur nýsköpunarfyrirtæki því margir álíti sem svo að margir aðilar séu með starfsemi sem tengist ferðaþjónustu sem er stærsta grein Suðurnesja. Hún nefndi þar m.a. Algalíf og GeoSilica á Ásbrú, Fjölbrautaskóla Suðurnesja og Skólamat í Keflavík. „Þetta voru skemmtilegar heimsóknir. Maður fræðist svo mikið þegar maður mætir á staðinn. Starfsemin í Fjölbrautaskólanum er sterk og þegar við tölum um að auka þurfi fjölbreytni í atvinnulífinu verður manni hugsað til iðnnáms sem þarf að efla enn meir. Ég var heilluð að sjá öfluga starfsemi Skólamatar. Ég á barn á leikskólaaldri og því var ég forvitinn að fræðast um starfsemi fyrirtækisins sem hefur stækkað mikið. Þar er mikill metnaður og þróun á ferðinni í flottu fyrirtæki sem hugar vel að næringu og hollustu í skólamat til barnanna okkar. Svo heimsóttum við Hótel Keflavík og þar hefur aldeilis verið áhugaverð uppbygging og stækkun í gegnum tíðina. Við höfum heimsótt um 200 fyrirtæki á árinu um allt land og erum ekki hætt. Við munum koma aftur og kynna okkur betur fleiri þætti á Suðurnesjum í haust, m.a. útlendingamálin í næstu heimsókn,“ sagði Kristrún.