Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Moka upp þorski kjaftfullum af loðnu
Valur Þór Guðjónsson skipstjóri á Sunnu Líf GK í löndun í dag. VF-mynd: Hilmar Bragi
Föstudagur 15. mars 2019 kl. 16:56

Moka upp þorski kjaftfullum af loðnu

Sjómenn eru núna að moka upp þorski við Garðskaga. Fiskurinn er fallegur og kjaftfullur af loðnu. Veiðin hefur verið góð síðustu daga og raunar alveg frá áramótum segir Valur Þór Guðjónsson skipstjóri á Sunnu Líf GK. Víkurfréttir tóku hann tali þar sem hann var að landa í Sandgerði nú um miðjan dag.
 
Sunna Líf GK er netabátur sem hefur verið að gera það gott síðustu daga. Tveir karlar eru um borð og þeir hafa fengið 60 tonn af fallegum fiski á nokkrum dögum. Báturinn er nýlega byrjaður á veiðum eftir að hafa verið í miklum endurbótum og breytingum.
 
Valur segir að í dag hafi þeir aðeins verið með tvær níu neta trossur og þær hafi verið fullar af fiski þegar þær voru dregnar í morgun. Fiskiríið er þannig að Valur ákvað að fækka um eina trossu því báturinn ber bara ekki meira en það sem t.d. kom í trossurnar tvær í dag. Meira að segja varð annar bátur að draga fjögur net fyrir áhöfnina á Sunnu Líf GK, þar sem allt var orðið fullt af fiski og ekki um neitt annað að ræða en að koma sér í land með aflann.
 
Valur lýsir ástandinu í hafinu þannig að það sé allt fullt af fiski. Greinilegt er að þorskurinn er í mikilli loðnu og sjómennirnir á smábátunum eru að sjá loðnuna um allt. Hann segir gott að þorskurinn sitji nú að því veisluborði sem loðnan er svona rétt áður en þorskurinn hrygnir.
 
Vikan er búin að vera góð hjá körlunum á Sunnu Líf GK og framundan er helgarfrí, enda öll vinnsluhús full af fiski og erfitt að fá meiri kvóta. Næst verður farið út á sunnudagskvöld og netin lögð. Menn gera svo ráð fyrir að ævintýrið haldi áfram í næstu viku.
 
Viðtal við Val skipstjóra er í meðfylgjandi myndskeiði.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024