Moka snjó fyrir 3 milljónir í dag
Á degi sem þessum þar sem margir eiga í stökustu vandræðum með að komast ferða sinna er afar mikilvægt að götur séu greiðar og öruggar. Starfsmenn Reykjanesbæjar hafa verið að síðan klukkan 4 í nótt við snjómokstur en það er Þjónustumiðstöð Reykjanesbæjar sem hefur yfirumsjón með snjómokstri og hálkuvörnum á götum, gangstéttum og göngustígum bæjarins samkvæmt ákveðinni forgangsröðun.
„Í dag eru 16 snjóruðningstæki á ferðinni um götur Reykjanesbæjar. Kostnaður á klukkustund með þessi tæki kostar bæinn 197.750 krónur, svo er bara spurning hve langan tíma það taki að klára verkið. Þannig að dagurinn í dag er að kosta Reykjanesbæ næstum 3 milljónir króna. Byrjað var upp úr klukkan 4 í nótt og gert ráð fyrir að menn verði að til kl 19.00 í kvöld, svo verður allur dagurinn á morgun notaður í plön, breikkanir og lagfæringar,“ sagði Guðlaugur H. Sigurjónsson Framkvæmdarstjóri Umhverfis og skipulagssviðs Reykjanesbæjar í samtali við Víkurfréttir fyrir skömmu.
Þær götur sem eru í forgangi eru strætóleiðir, stofnbrautir og helstu tengibrautir sem liggja í átt að neyðarþjónustu s.s. sjúkrahúsi,lögreglu og slökkvistöð einnig þær götur sem liggja í átt að skólum og leikskólum. Þær götur sem liggja í brekku eru einnig í forgangi hvað varðar hálkueyðingu. Leitast er við að bílastæði við grunn- og leikskóla sé einnig mokuð en það er ekki í forgangi oftast eru bílastæðin hreinsuð daginn eftir. Húsagötur eru ekki mokaðar nema að þær séu orðnar þungfærar. Við hálkueyðingu gatna er eingöngu notast við salt í eins litlu magni og mögulegt er.
Miðað er við að moka fyrst þær leiðir sem liggja að grunnskólum og leikskólum. Síðan eru gönguleiðir meðfram helstu stofn- og tengibrautum og göngustígar á opnum svæðum hreinsaðir. Við hálkuvarnir á gönguleiðum er notast við salt og sand sem blandað er saman.
Húsagötur og fáfarnari götur eru aðeins hreinsaðar ef þær eru orðnar þungfærar venjulegum einkabílum sem eru útbúnir til vetraraksturs. Ekki verður mokað frá innkeyrslum og þurfa íbúar því að sjá um það sjálfir. Vetrarþjónustan miðast við venjulegar vetraraðstæður. Ef að veður ef vont með mikilli ofankomu er reynt eftir fremsta megni að halda þeim götum sem eru í forgangi greiðfærum. Ekki er gert ráð fyrir að mokað sé á tímabilinu frá kl 12 á miðnætti og til 04.30 nema í ýtrustu neyð. Ef von er á hláku er reynt eftir fremsta megni að hreinsa frá niðurföllum þar sem vatn safnast fyrir.
Guðlaugur segir markmið Reykjanesbæjar að veita hagkvæma vetrarþjónustu sem stuðlar að öryggi vegfarenda og íbúa bæjarins.
Myndir/Pket: Svona var umhorfs í Reykjanesbæ í morgun.