Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Moka makríl úr kraumandi sjó
Fimmtudagur 23. ágúst 2012 kl. 11:46

Moka makríl úr kraumandi sjó

Smábátasjómenn hafa verið að moka upp makríl síðustu daga með ströndinni frá Garðskagatá og inn undir Vogastapa. Makríllinn veður um allan sjó og má sjá kraumandi flekki skammt frá landi.

Bátarnir sem stunda veiðarnar eru svokallaðir krókaaflamarksbátar. Þeir eru ekki bundnir kvóta en hafa aðeins veiðileyfi út ágúst, samkvæmt ákvörðun ráðuneytis sjávarútvegsmála. Sjómenn hafa hins vegar sýnt því mikinn áhuga að halda veiðunum áfram, enda fitnar markíllinn hratt þessa dagana og verður verðmætari með hverjum deginum. Finnst sjómönnum því sorglegt að hætta veiðunum á sama tíma og sjórinn sé fullur af makríl. Þá er bent á það að makríllinn sé að ræna aðrar fisktegundir fæðu sinni og honum þurfi að halda í skefjum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Afli bátanna sem stunda veiðarnar í Faxaflóa skiptir tugum tonna á hvern bát frá því um síðustu helgi. Aflaverðmætið skiptir milljónum en afli bátanna er yfirleitt heilfrystur.

Á meðfylgjandi mynd má sjá krókabátinn Sigga Bessa SF 97 en hann hafði í gær landað 28 tonnum í Keflavík frá því á sunnudag. Sömu sögu er að segja af öðrum krókabátum. Allir eru þeir með tugi tonna eftir nokkra daga á veiðum en sumir þessara báta landa stundum tvisvar á dag.

VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson