Móðirin komin með forræði í Slóvakíu
- „Eins gróft mannréttindabrot og hægt er“
„Í gær fékk ég upplýsingar um það að móðir hans er komin með forræði. Það gildir í Slóvakíu en ekki annars staðar. Þetta er eins gróft mannréttindabrot og hægt er,“ sagði Ragnar Hafsteinsson, faðir úr Keflavík, í viðtali í þættinum Í Bítið á Bylgjunni í morgun.
Eins og Víkurfréttir sögðu frá í fyrradag fór Ragnar til Slóvakíu og sótti sex ára gamlan son sinn sem hafði ekki komið til baka úr vetrarfríi hjá móður sinni sem er búsett þar. Þeir feðgar eru búsettir í Noregi og degi áður en drengurinn átti að snúa til baka þangað fékk Ragnar skilaboð um að hann væri veikur. Eftir það lokaði móðir drengsins og fjölskylda hennar á öll samskipti við Ragnar og fékk hann ekki að tala við son sinn.
Árið 2014 úrskurðaði héraðsdómur Reykjaness að Ragnar hefði forræði yfir drengnum og að hann skyldi dvelja hjá móður sinni einn mánuð yfir sumarið og önnur hver jól og áramót.
Hér má hlusta á viðtalið á Bylgjunni í morgun í heild sinni.
Í viðtalinu Í Bítinu í morgun vildi Ragnar koma á framfæri þakklæti til allra sem sýnt hafa honum stuðning.