Móðirin í símanum á meðan barnið hékk út um gluggann
Lögreglan á Suðurnesjum veitti í gær athygli bifreið sem ekið var um götur í umdæminu. Stúlkubarn, sem augljóslega var ekki í bílbelti, hékk út um afturglugga bílsins, en móðirin, sem ók honum var að tala í farsíma og veitti barninu ekki athygli. Lögreglan gaf henni merki um að stöðva bifreiðina, en hún tók ekki eftir því sökum anna í símanum.
Þegar móðirin varð lögreglu loks vör átti hún í erfiðleikum með að stöðva bifreiðina þar sem síminn virtist enn trufla hana. Það hafðist á endanum og gerði lögregla þá konunni grein fyrir alvarleika þessa athæfis og tjáði henni að lögregluskýrsla yrði gerð um málið.
Mynd úr safni.