„Móðgun við bæjarfulltrúa“
Guðbrandur Einarsson, oddviti A-listans í Reykjanesbæ, gagnrýnir harðlega hvernig staðið er að framsetningu gagna vegna fjárhagsáætlunar 2010. Hann segir vinnubrögðin óásættanleg og móðgun við bæjarfulltrúa. Guðbrandur segir fjárhagsáætlununa alltof seint fram komna og veltir því fyrir sér hvort verið sé koma í veg fyrir umræðu.
Þetta kom fram í máli Guðbrands á bæjarstjórnarfundi á þriðjudaginn þegar fjárhagsáætlunin kom til fyrri umræðu – allt of seint að hans mati.
„Við erum hér á síðasta fundi ársins að taka til umfjöllunar fjárhagsáætlun sem við ættum í raun að vera afgreiða í dag samkvæmt ritúalinu. Ég velti því fyrir hvers vegna í ósköpunum ekki er hægt að láta dagatalið stemma þannig að við getum verið að klára hlutina á réttum tíma,“ spurði Guðbrandur.
„Að við þurfum að vera eiga við það æ ofan í æ að ekki skuli vera hægt að gera hlutina miðað þær tímasetningar sem lög gera ráð fyrir eru óásættanleg vinnubrögð,“ sagði Guðbrandur ennfremur.
Hann sagði það einnig óásættanleg vinnubrögð að verið væri að afhenta bæjarfulltrúm fjárhagsætlun „inn á miðjum bæjarstjórnarfundi.“
„Við erum algjörlega vanhæf til að taka þátt í umræðu um fjárhagsáætlun sem við fáum í hendurnar þegar verið er að kynna hana. Það er að minni hyggju móðgun við bæjarfulltrúa að gera þetta með þessum hætti.
Við hefðum við átt að fá þessi gögn í síðustu viku þannig að við hefðum getað komið undirbúin fyrir þennan fund. Verið tilbúin með spurningar og lagt þær fram núna í fyrstu umræðu ef menn hefðu fylgt réttu dagatali. Samkvæmt sveitarstjórnarlögum hefðum við átt að vera búin að ljúka bæði fyrri og seinni umræðu fyrir áramót,“ sagði Guðbrandur.
Hann sagðist fallast á það, úr því sem komið væri, að fresta seinni umræðu fram yfir áramót en í raun hefði hún átt að fara fram 29. desember. Það hefði þýtt að embættismenn bæjarins hefðu þurft að vinna yfir jólin til að svara spurningum A-listans. Hann væri ekki fylgjandi því.
„Það er ekki fólki bjóðandi að verið sé verið að sýna því plögg á síðustu metrunum. Ekki nema að þetta sé gert vegna þess að menn vilji koma í veg fyrir umræðu. Að þetta sé gert meðvitað til þess. Þetta á að vera fyrri umræða en er í raun bara móttaka gagna,“ sagði Guðbrandur.