MOA ræður sex starfsmenn til upplýsingasöfnunnar
Markaðs-, atvinnu- og menningarsvið Reykjanesbæjar hefur nú ráðið sex starfsmenn til að hafa samband við öll fyrirtæki á Suðurnesjum til að uppfæra fyrirtækjaskrá MOA. Starfsmennirnir munu hafa samband símleiðis við fyrirtæki til að safna upplýsingum um starfsemi, fjölda starfsmanna, heimasíður, tengla, netföng o.þ.h. Er þessi uppfærsla liður í stefnumótun MOA í atvinnumálum og framhald á könnun sem gerð var árið 1998 þegar skráðar voru í fyrsta sinn upplýsingar um öll fyrirtæki á svæðinu á vegum skrifstofunnar. Verkefnið er samvinnuverkefni MOA, Bókasafns Reykjanesbæjar, Svæðisvinnumiðlunar, Fjölbrautaskóla Suðurnesja og fleiri aðila sem hagnýtt geta upplýsingar af þessu tagi. Er það von MOA að stjórnendur fyrirtækja taki vel í erindi starfsmannanna, sem eins og áður segir, munu hafa samband símleiðis á næstu vikum.