Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Mjög jákvæð reynsla af ókeypis strætó
Mánudagur 13. desember 2004 kl. 17:03

Mjög jákvæð reynsla af ókeypis strætó

Mjög jákvæð reynsla hefur skapast af ókeypis strætó í Reykjanesbæ samkvæmt bæjaryfirvöldum og SBK. Um áramótin 2002/2003 ákvað Reykjanesbær í samstarfi við SBK að bjóða almenningi frían aðgang að almenningsvögnum í bænum en í kjölfarið hefur notkun almenningsvagnanna stóraukist.

SBK hóf rekstur strætisvagna árið 1996 en þá var almenningi gert að greiða fyrir aðgang að þeim líkt og tíðkast á höfuðborgarsvæðinu. Fljótlega eftir að ákveðið var að hafa ókeypis í vagnanna varð töluverð aukning í notkun strætisvagnanna eða um 76% aukning samkvæmt talningu SBK. Um það bil 470 farþegar voru í vögnunum daglega fyrir breytinguna en eftir hana voru þeir verið 831 talsins.

Samkvæmt fyrstu tölum í fjöldamati SBK er meðaltalsfjöldinn enn að aukast og búist er við því að fjöldinn fari yfir 900 farþega á dag. Í fréttatilkynningu frá Reykjanesbæ kemur fram að suma daga er fjöldinn vel yfir 1000 farþega á dag en þá hafa verið settir inn aukavagnar til að anna eftirspurn.

Ferðir almenningsvagnanna eru frá klukkan 7:05 á morgnana til 24:00 á kvöldin og eru þær á 30 mínútna fresti til klukkan 19:00 en á klukkutíma fresti til miðnættis. Leiðinni hefur verið breytt en vagnarnir fara nú fram hjá öllum skólum bæjarins, íþróttahúsum, tónlistaskóla, sundlaugum, Kjarna, H-88 og Reykjaneshöllinni svo eitthvað sé nefnt.

Á blaðamannafundi í dag kynntu bæjarstjóri Reykjanesbæjar, Árni Sigfússon, og framkvæmdastjóri SBK, Einar Steinþórsson, nýtt merki almenningsvagnanna og ber það yfirskriftina „Strætó Reykjanes.“

Að sögn Einars vita þeir til þess að fullorðið fólk hafi losað sig við bíl nr. 2 sem nánast eingöngu var notaður til að komast til og frá vinnu og þess í stað nýti fólk sér strætó.

Með fréttatilkynningunni fylgdi lítil saga en hún fer hér:

Ungur Reyknesingur ákvað að fara í heimsókn til Reykjavíkur. Þegar þangað kom ákvað hann að taka strætisvagn á milli borgarhluta, beið við biðskýli á Miklubraut og þegar strætó stöðvaði, bauð hann vagnstjóra góðan dag og gekk aftur í vagninn. „Hvað er þetta drengur, ætlarðu ekki að borga,“ hrópaði þá vagnstjórinn. „Hvað? Er ekki ókeypis í strætó hér? – þannig er það í Reykjanesbæ,“ sagði ungi maðurinn vandræðalegur. Farþegar litu hver á annan hneykslaðir yfir hvað þessum börnum dettur í hug að segja til að afsaka sig! En þannig er það í Reykjanesbæ!

Myndin: Einar Steinþórsson og Árni Sigfússon með nýja merki almenningsvagna í Reykjanesbæ VF-mynd: Atli Már Gylfason

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024