Missti stjórn á ökutæki og hafnaði inni á haftasvæði flugverndar

Ökumaður jeppabifreiðar missti stjórn á ökutækinu í hálku á Þjóðbraut á Ásbrú í gærkvöldi. Ökutækið fór útaf veginum og í gegnum girðingu og endaði inni á haftasvæði flugverndar á Keflavíkurflugvelli.
 
Engin slys urðu á fólki við óhappið en bíllinn skemmdist nokkuð og var fluttur á brott á pallbíl.
 
Þar sem girðing umhverfis Keflavíkurflugvöll rofnaði við óhappið varð að standa vakt við girðinguna þar til henni var lokað aftur.
 
Þeir sem fara án heimildar inn á haftasvæði flugverndar á Keflavíkurflugvelli geta átt yfir höfði sér allt að fimm ára fangelsi. Væntanlega verður horft framhjá þessu regluverki, þar sem um umferðarslys var að ræða á akbraut sem liggur alveg við girðingu Keflavíkurflugvallar.
 
Myndirnar tók Bárður Sindri Hilmarsson á vettvangi óhappsins í gærkvöldi.