Minntust Guðjóns Þorgils Kristjánssonar
Bæjarstjórn Suðurnesjabæjar minntist Guðjóns Þorgils Kristjánssonar á bæjarstjórnarfundi þann 4. nóvember síðastliðinn. Guðjón lést þann 25. október sl., 72 ára að aldri.
„Guðjón lét af störfum hjá Suðurnesjabæ fyrir ári síðan, eftir að hafa starfað um 40 ár hjá Sandgerðisbæ og síðar Suðurnesjabæ. Guðjón var lífsglaður og fjölhæfur Bolvíkingur sem kom fyrst til Sandgerðis sem ungur kennari. Eftir nokkurra ára kennarastarf fór hann til annarra starfa annars staðar en réðist sem skólastjóri Grunnskólans í Sandgerði árið 1985 og sinnti störfum skólastjóra með miklum sóma til ársins 2005, eða í um tuttugu ár. Árið 2005 hóf Guðjón störf hjá Sandgerðisbæ, sem fræðslu- og menningarfulltrúi og um tíma hélt hann einnig utan um íþrótta- og æskulýðsmál.
Guðjón annaðist um árabil fundaritun bæjarráðs og bæjarstjórnar Sandgerðisbæjar og Suðurnesjabæjar. Við þau störf naut hann alla tíð trausts kjörinna fulltrúa. Á sinn hægláta hátt átti hann oft þátt í að leiða erfið mál til lykta og sá til þess að bókanir væru öllum til sóma.
Guðjón var góður hagyrðingur, samdi gjarnan vísukorn sem fönguðu augnarblikið á skemmtilegan hátt og má segja að hann hafi verið einskonar hirðskáld bæjarstjórna. Margir samferðamenn Guðjóns eiga vísukorn eftir hann, sem vekja ánægjulegar minningar.
Bæjarstjórn þakkar Guðjóni samfylgd og ánægjulegt samstarf um árabil, sem og framlag hans til samfélagsins. Blessuð sé minning Guðjóns Þorgils Kristjánssonar.
Bæjarstjórn Suðurnesjabæjar sendir fjölskyldu Guðjóns innilegar samúðarkveðjur.“