Minntist Gríms Karlssonar við opnun sumarsýninga
Valgerður Guðmundsdóttir, menningarfulltrúi Reykjanesbæjar, minntist Gríms Karlssonar skipstjóra og líkanasmiðs við opnun sumarsýninga í Duus Safnahúsum sl. föstudag. Grímur lést 7. júní sl.
„Stuttu eftir síðustu aldamót kynntist ég höfðingjanum Grími Karlssyni, fyrrverandi skipstjóra og líkanasmið. Þannig hagaði málum að ég gegndi stöðu menningarfulltrúa í Reykjanesbæ og fyrir lá það stóra verkefni að stofna Bátasafn Gríms Karlssonar en Grímur hafði þá til margra ára verið einn ötulasti bátalíkanasmiður landsins. Eftir hann lágu nokkur hundruð líkön skipa og báta sem öllum fylgdi saga. Grímur kunni þær auðvitað allar og sagði manna best frá þeim. Hann var nefnilega ekki bara handlaginn smiður heldur líka vel fróður sagnamaður. Með Grími fór fríður flokkur harðduglegra baráttujaxla með Árna Johnsen í fararbroddi og það var ekki að spyrja að útkomunni; á lokadaginn, 11.maí árið 2002 var Bátasafn Gríms Karlssonar opnað í Duus Safnahúsum í Reykjanesbæ.
Grímur var enginn venjulegur maður, hann var frekar í ætt við Berserki. Líkanasmíðin var hvorki atvinna hans né áhugamál, hún var fyrst og fremst ástríða hans og fátt og fáir sem gátu staðið í vegi fyrir honum þegar hann tók kúrsinn. Ekkert fannst honum jafnast á við bátana og þá sögu sem þeir stóðu fyrir og fannst t.d. illa varið því plássi sem ekki færi undir bátalíkön í Duus Safnahúsum. Hann hefði auðveldlega getað fyllt alla 8 salina í sýningarhúsunum með bátum og fannst engin þörf á fjölbreytilegra í sýningarhaldi og þá allra síst þessu listadóti sem „enginn hefði hvort eð er áhuga á“. Þarna skildi á milli okkar Gríms og við tókumst á, oftar en einu sinni og það stundum hressilega. En alltaf var samt hlýtt á milli okkar enda blóðskyld, bæði komin af sjómönnum af Snæfellsnesinu og fannst báðum allt í lagi þó hvessti stundum.
Bátasafn Gríms Karlssonar er og verður hjartað í Duus Safnahúsum og við sem þar störfum, eigum eftir að sakna Gríms og hans miklu ástríðu. Við þökkum honum samfylgdina og sendum fjölskyldu hans samúðarkveðjur“.