Minningarsteinn um banamenn Jóns Arasonar í Garðinum krefst rannsóknar
Í Garðinum er merkilegur letursteinn. Steinninn er sléttur og burstalaga. Um hann miðjan eru klappaðar rúnir. Að öllum líkindum er steinninn með merkilegri fornminjum á svæðinu. Hann er skammt vestan undir manngerðum hól norðan nýja íþróttahússins. Umhverfis eru miklar hleðslur. Vestan þeirra liggur gamli kirkjuvegurinn að Útskálakirkju. Sést enn móta fyrir veginum ef vel er að gáð. Áður fyrr var talið að hóllinn væri fornmannagröf og steinninn væri grafsteinn fornmanns. Gömul þjóðsaga er til um steininn.Hún segir frá bónda er ætlaði sér að nota hann í nýbyggingu. Þá hvíldi steinninn á þremur öðrum. Átta menn þurfti til að bera steininn heim að bæ. Um nóttina dreymdi bónda slæman draum og hann var ofsóttur af illum öndum. Morguninn eftir lét hann færa steininn aftur á sinn stað og þurfti þá einungis sex menn til. Þá segir einnig einhvers staðar að hugsanlega sé steinninn frá því um 1550 þegar banamenn Jóns Arasonar höfðu verið handteknir á Kirkjubóli og danskir menn voru ofsóttir í framhaldi af því. Steinninn sé þá minningarstein um Danadrápin. Hvað sem sögnum líður hefur þessi steinn og letrið á honum aldrei verið rannsakað sem skyldi. Full þörf er á því, enda staðsetning á fárra vitorði.
Þrisvar sinnum hefur áhugamaður um steininn reynt að taka mynd af letrinu og í engin skipti hafa myndirnar komið fram á filmunni. Trúir því hver sem vill. Ljósmyndari Víkurfrétta reyndi einnig við steininn fyrir helgi. Þrátt fyrir að rúnirnar séu augljósar á steininum og hafi sést greinlega þegar steinninn var myndaður þá eru þær illsjáanlegar eftir að myndirnar voru afritaðar af stafrænni myndavél inn á tölvukerfi blaðsins. Sannarlega rannsóknarefni þar á ferð.
Myndin: Steinninn umræddi í Garðinum. Um hann miðjan eru klappaðar rúnir sem sjást mjög auðveldlega með berum augum en nær ómögulegt er að mynda! VF-mynd: Hilmar Bragi
Þrisvar sinnum hefur áhugamaður um steininn reynt að taka mynd af letrinu og í engin skipti hafa myndirnar komið fram á filmunni. Trúir því hver sem vill. Ljósmyndari Víkurfrétta reyndi einnig við steininn fyrir helgi. Þrátt fyrir að rúnirnar séu augljósar á steininum og hafi sést greinlega þegar steinninn var myndaður þá eru þær illsjáanlegar eftir að myndirnar voru afritaðar af stafrænni myndavél inn á tölvukerfi blaðsins. Sannarlega rannsóknarefni þar á ferð.
Myndin: Steinninn umræddi í Garðinum. Um hann miðjan eru klappaðar rúnir sem sjást mjög auðveldlega með berum augum en nær ómögulegt er að mynda! VF-mynd: Hilmar Bragi