Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Minningarsjóður Gísla Þórs Þórarinssonar veitti styrki til góðra mála
Frá afhendingu styrkja úr minningarsjóðnum þann 1. september.
Ritstjórn
Ritstjórn skrifar
mánudaginn 2. september 2019 kl. 09:34

Minningarsjóður Gísla Þórs Þórarinssonar veitti styrki til góðra mála

Stofnaður hefur verið sjóður til minningar um Njarðvíkinginn Gísla Þór Þórarinsson sem lést í Meham í Noregi í apríl síðastliðinn. Hrundið var af stað söfnun í samfélaginu, bæði hér suður með sjó og í Meham í Noregi, til að standa straum af kostnaði við að koma Gísla Þór heim til Íslands og fyrir útfararkostnaði. Samhugurinn var mikill og lögðu margir sitt af mörkum til að létta undir á erfiðum tíma. Útför Gísla Þórs fór fram frá í Ytri Njarðvíkurkirkju þann 17. maí 2019. Þeir fjármunir sem standa eftir hafa nú verið færðir í nýstofnaðan minningarsjóð um Gísla Þór. Tilgangur sjóðsins er að veita styrki til góðgerðamála sem stjórn sjóðsins, skipuð skólasystkinum Gísla Þórs, tekur ákvörðun um hverju sinni. Veittir eru styrkir úr sjóðunum þann 1. september ár hvert, á afmælisdegi Gísla Þórs. Í fyrstu úthlutun sjóðsins ákvað sjóðurinn að styrkja eftirfarandi. 

Tónlistarskóli Reykjanesbæjar 

Tónlist átti stóran þátt í lífi Gísla Þórs. Sjálflærður fann Gísli Þór styrkleika sína og hæfileika í gegnum tónsmíðar, textagerð og gítarspil. Tækifæri til tónlistarnáms er ekki á færi allra og fær Tónlistarskóli Reykjanesbæjar því styrk til að styðja við barn í tónlistarnámi. 
Tónlistarskólinn fær 100.000 kr. styrk úr Minningarsjóði Gísla Þórs. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Líknar- og hjálparsjóður Njarðvíkurkirkna

Aðstæður Gísla Þórs í æsku voru ekki alltaf ákjósanlegar og á fullorðins árum fann Gísli Þór ávallt til með þeim börnum sem ekki höfðu nægan mat á borðum. Líknar- og hjálparsjóður Njarðvíkurkirkna er sjóður sem aðstoðar fólk í neyð t.d. með úthlutun matarkorta, aðstoð við frístundir barna og skólamáltíðir. Sjóðurinn vinnur samkvæmt viðmiðunarreglum hjálparstarfs kirkjunnar. Líknar- og hjálparsjóður Njarðvíkurkirkna fær 100.000 kr. styrk úr Minningarsjóði Gísla Þórs. 

Velferðarsjóður Suðurnesja

Íþróttir skipuðu stóran sess í lífi Gísla Þórs þar sem hann spilaði fótbolta með Ungmennafélagi Njarðvíkur og einnig var hann eldheitur Liverpool aðdáandi. Það tækifæri sem Gísla Þór gafst til að stunda íþróttir frá barnsaldri gaf honum fastan grunn, stuðning og hvatningu. Velferðarsjóðurinn styður einkum við barnafjölskyldur og greiðir m.a. fyrir tómstundir barna þar sem foreldrar hafa ekki fjárhagslegt svigrúm til þess að standa straum að slíku. Velferðarsjóður Suðurnesja fær 100.000 kr. styrk úr minningarsjóði Gísla Þórs. 

Leikskólinn í Meham, Noregi

Samfélagið í Meham tók opnum örmum á móti Gísla Þór þegar hann flutti til Meham til að stunda sjómennsku. Í þessu litla samfélagi leið Gísla Þór vel og þar átti hann góðar stundir fram að dánardegi. Sjóðurinn vill þakka hlýhuginn og samhuginn frá samfélaginu í Meham með því að veita styrkt til leikskólans í Meham til hljóðfærakaupa og til hljóðfærakennslu. Leikskólinn í Meham fær 200.000 kr. styrk úr minningarsjóði Gísla Þórs. 

F.h. Minningarsjóðs Gísla Þórs Þórarinssonar
Guðni Erlendsson

Snorri Páll Jónsson

Einar Árni Jóhannsson

Pálína Gunnarsdóttir

Anna Steinunn Jónasdóttir