Minnihlutinn telur sig ekki fá viðunandi svör
Væntanleg 800 milljón króna lántaka Reykjanesbæjar vegna nýrra byggingasvæða kom aftur til umræðu á bæjarstjórnarfundi í síðustu viku eftir að málinu hafði verið frestað frá síðasta fundi á meðan aflað yrði þeirra ganga sem minnihlutinn taldi að vantaði um stöðu framkvæmda í þeim hverfum sem eru í uppbyggingu.
Þrátt fyrir að frekari gögn hafi verið lögð fram í málinu er að mati minnihlutans enn óljóst hver staðan er í hverju hverfi fyrir sig hvað varðar útgáfu byggingarleyfa, tekjur og útlagðan kostnað. Miðað við fyrirliggjandi gögn finnst minnihlutanum það óskiljanlegt hvers vegna vanti 800 milljónir nú þegar, af því er fram kemur í bókun hans en þar segir m.a:
“Einungis hefur verið lagt fram heildaryfirlit yfir byggingarleyfi frá árinu 2004 og mjög erfitt fyrir kjörna fulltrúa að átta sig á stöðu hvers hverfis. Miðað við fyrirliggjandi upplýsingar mætti draga þá ályktun að búið sé að skila byggingarleyfum fyrir 996 íbúðir af þeim 1640 sem búið er að skipuleggja í þessum hverfum sem eru um 61% íbúðanna. Sé þetta rétt ályktað ætti u.þ.b. 61% af tekjunum að vera búið að skila sér inn í bæjarsjóð sem eru þá u.þ.b. 1.350 milljónir. Heildarkostnaðaráætlun allra hverfanna er 2.310 milljónir og fyrir liggur samkvæmt gögnum frá bæjarstjóra að búið sé að framkvæma fyrir 1.370 milljónir og því með öllu óskiljanlegt hvers vegna vanti 800 milljónir nú þegar”.
Til að svara þessu lagði meirihlutinn fram eftirfarandi bólkun:
,,Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að upplýsa A-listann um tilhögun á úthlutunum lóða, kostnaði og tekjum af gatnagerð velur A-listinn að skella við skollaeyrum. Við því er ekkert að gera.
Komið hefur fram að A-listinn gerir alvarlegar athugasemdir við að byggt sé upp í Reykjanesbæ með þeim árangri að hér er íbúafjölgun hlutfallslega mest af 5 stærstu sveitarfélögum á landinu. A-listinn hefur ekki lagt fram neinar hugmyndir um frekari uppbyggingu í Reykjanesbæ og virðist svíða að enn sé gríðarleg eftirspurn eftir lóðum undir einbýli, raðhús og fjölbýlishús í bæjarfélaginu sem hann á að vera fulltrúi fyrir. Fáar lóðir eru eftir þrátt fyrir skipulag þriggja nýrra hverfa”.