Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Minnihlutinn: Staða bæjarsjóðs versnar. Meirihlutinn: Mikilsverð uppbygging
Miðvikudagur 4. maí 2005 kl. 22:47

Minnihlutinn: Staða bæjarsjóðs versnar. Meirihlutinn: Mikilsverð uppbygging

Síðari umræða um ársreikninga Reykjanesbæjar fyrir árið 2004 var á bæjarstjórnarfundi í gærkvöldi. Bæði minnihluti, sem og meirihluti, lögðu fram bókanir um reikninginn:

Til máls tók Kjartan Már Kjartansson, sem lagði fram bókun minnihlutans;

Rekstrarhalli 1600 milljónir á 3 árum
Bæjarsjóður Reykjanesbæjar hefur, að teknu tilliti til fjármagnsliða, verið rekinn með tæplega 1.600.- milljón króna halla á árunum 2002 – 2004. Hallinn hefur verið fjármagnaður með söluhagnaði fasteigna upp á 1.100.- milljónir auk nýrra lána. Þótt andvirði seldra fasteigna hafi að hluta til verið varið til niðurgreiðslu skulda hefur eigið fé bæjarsjóðs lækkað um 300 milljónir á tímabilinu, var 3,8 milljarðar árið 2002 en er 3,5 milljarðar í árslok 2004.

Með sölu fasteigna til sérstaks fasteignafélags og með því að láta það byggja og eiga húsnæði sem bærinn tekur á leigu, koma skuldir vegna þeirra ekki fram í reikningum bæjarins. Þess í stað er sveitarfélagið skuldbundið til að leigja þetta húsnæði til langs tíma og nema lágmarksskuldbindingar vegna þessara leigusamninga rúmum 3.7 milljörðum króna á núvirði. Það mun hafa veruleg íþyngjandi áhrif á rekstur bæjarsjóðs til framtíðar litið.

Staða bæjarsjóðs versnar því jafnt og þétt undir stjórn sjálfstæðismanna. Það er einnig umhugsunarefni hve langt áætlanir eru frá raunverulegri útkomu. Í upphaflegri fjárhagsáætlun ársins 2004 var gert ráð fyrir rekstrarafgangi upp á 4 milljónir en við endurskoðun fjárhagsætlunar í desember 2004, var þessi rekstrarafgangur orðinn að rekstrarhalla upp á 833 milljónir. Eins og fram kemur í ársreikningnum reyndist hallinn ,,aðeins” 253 milljón króna og hafa sumir sjálfstæðismenn talað um það sem mikinn og góðan árangur. Má að miklu leyti þakka hagstæðari gengisþróun að hallinn varð ekki meiri. Það er ekki hægt að fallast á að þetta sé góður árangur, því 253 milljón króna halli er alltof mikið og ef ekki á illa að fara, verður að snúa þessari óheillaþróun við.

Meirihluta sjálfstæðismanna hefur, á þeim 3 árum sem hann hefur verið við völd, ekki tekist að ná tökum á fjármálum Reykjanesbæjar og fátt sem bendir til að það muni breytast, heldur þvert á móti.

Kjartan Már Kjartansson, Sveindís Valdimarsdóttir,
Guðbrandur Einarsson, Ólafur Thordersen, Jóhann Geirdal.


Þá tók til máls tók Árni Sigfússon og lagði fram bókun meirihlutans;

Því miður hefur minnihlutinn kosið að vera hlutlaus í afstöðu til mikilsverðra mála sem snúa að uppbyggingu Reykjanesbæjar en gagnrýnir nú ákaft að þessi uppbygging skuli ekki vera ókeypis.

Með þeim verkefnum sem meirihluti sjálfstæðismanna ber ábyrgð á hefur tekist að virkja einkaaðila til að leggja fjármagn í gríðarstór og mikilvæg verkefni. Þetta á við um eflingu háskóla- og íþróttastarfsemi með tilkomu Íþróttaakademíunnar og nemendaíbúða sem nú eru í byggingu, hundruð nýrra íbúða sem nú eru í byggingu á vegum einstaklinga og fyrirtækja í bænum, uppbyggingu Helguvíkursvæðisins sem atvinnusvæðis Suðurnesja til framtíðar og tengingu þess við alþjóðaflugvöllinn, Reykjanesvirkjun á vegum Hitaveitu Suðurnesja, fjölgun verslana við Hafnargötu eftir endurbyggingu götunnar, bætta aðstöðu fyrir fatlaða, aukið umferðaröryggi fyrir gangandi vegfarendur, lestrarmenningarátak, umhverfisátak á hverju ári, Frístundaskóla og stóreflt menningarlíf í bænum svo nokkur dæmi séu tekin.

Tekið er undir með minnihlutanum að athyglisvert er að þrátt fyrir svo miklar framkvæmdir hefur eigið fé Reykjanesbæjar aðeins lækkað um 300 milljónir það sem af er kjörtímabilinu.

Á sama tíma og mikil uppbygging á sér stað hefur tekist að halda hagstæðu hlutfalli launakostnaðar í rekstri bæjarins á móti rekstrartekjum, sem er nú 46,7%. Þetta ber glöggt vitni um að þrátt fyrir hina gríðarlegu uppbyggingu og aukningu á þjónustu er hlutfall rekstrarkostnaðar á vegum bæjarins af tekjum að lækka. Veltufjárhlutfall er 0,99 og eiginfjárhlutfall 0,28. Til samanburðar má geta þess að veltufjárhlutfall Hafnarfjarðar og Kópavogs 2004 er um 0,8. Eiginfjárhlutfall Hafnarfjarðar er 0,24 og Kópavogs 0,34.

Því er ástæða til að vísa algerlega á bug gagnrýni Samfylkingar og Framsóknar á framkvæmdir og rekstur í bæjarfélaginu. Vilji menn vera samkvæmir sjálfum sér hefðu þeir átt að mótmæla einhverjum af þessum verkefnum þegar ákvörðun var tekin um þau þar sem þeir gagnrýna sífellt kostnað verkefnanna.

Árni Sigfússon, Björk Guðjónsdóttir, Þorsteinn Erlingsson,
Böðvar Jónsson, Steinþór Jónsson, Sigríður J. Jóhannesdóttir


Þá tók til máls Kjartan Már Kjartansson og lagði fram bókun minnihlutans;
Bókun sjálfstæðismanna er dæmigerð bókun meirihluta sem ekki vill ræða fjárhagsstöðu bæjarins en reynir að drepa umræðunni á dreif. Í bókun Framsóknarflokks og Samfylkingar er einungis verið að tala um bæjarsjóð, en ekki samstæðuna alla. Sjálfstæðismenn kjósa hins vegar að ræða um uppbyggingu Helguvíkursvæðisins sem tilheyrir reikningum Reykjaneshafnar en ef menn vilja taka þá reikninga með má geta þess að eigið fé hafnarinnar er nú neikvætt um 947 milljónir rúmar. Sjálfstæðismenn telja upp ýmis jákvæð verkefni sem bæjarfulltrúar hafa verið sammála um og mörg hver hafa ekki nein raunveruleg áhrif á afkomu bæjarsjóðs. Má þar nefna byggingu Reykjanesvirkjunar, lestrarmenningarátak, bætta aðstöðu fatlaðra og Íþróttaakademíu svo dæmi sé tekið.

Veltufjárhlutfallið sem sjálfstæðismenn kjósa að nefna í bókun sinni er veltufjárhlutfall samstæðunnar þ.e. 0,99 en þess er ekki getið í bókuninni að það var 1,37 árið 2003. Það undirstrikar þá þróun sem við erum að vara við.

Kjartan Már Kjartansson, Sveindís Valdimarsdóttir,
Guðbrandur Einarsson, Ólafur Thordersen, Jóhann Geirdal


Ársreikningur Reykjanesbæjar ásamt stofnunum hans fyrir árið 2004 samþykktur 11-0.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024