Minnihlutinn gagnrýnir fjárhagsstöðu Reykjanesbæjar
-„Innihaldslausar upphrópanir“,segir meirihlutinnBæjarfulltrúar Samfylkingarinnar lögðu fram bókun á bæjarstjórnarfundi Reykjanesbæjar sl. þriðjudag og gagnrýndu fjárhagsstöðu bæjarins harkalega og sögðu að fjárhagsáætlun bæjarins væri gersamlega óraunhæf.Minnihlutinn fullyrti að þær forsendur sem meirihlutinn hefði gefið sér við áætlanagerðina, gætu aldrei staðist því tekjur væru áætlaðar of háar og gjöld of lág. „Þó virðist (e.t.v. sem betur fer) ekki vera mikil alvara í þeim „áætlunum“, eða þeim kattarþvotti sem meirihlutinn er að sýna þessa dagana (...) Það er því niðurstaða okkar að hér sé einungis á ferðinni leikur meirihlutans að tölum sem settar eru fram í þeim tilgangi að fegra það slæma ástand sem skapast hefur í fjármálum bæjarins undir hans stjórn“, eins og segir orðrétt í bókuninni.Böðvar Jónsson (D) gat ekki orða bundist og sagði bókunina vera fulla af innihaldslausum upphrópunum. „Þetta er lélegur minnihluti“, sagði Böðvar og lagði áherslu á orð sín. Böðvar minntist einnig á að Jóhann Geirdal (J) hefði talað fjálglega um að laða fólk til byggðarlagsins í undangenginni kosningabaráttu. „Að tala um að allt sé að fara til andskotans í Reykjanesbæ, eins og Jóhann hefur gert, verður örugglega ekki til að laða fólk að“, sagði Böðvar.Jóhann Geirdal (J) sagði að fjárhagsáætlunin sýndi alls ekki að lán bæjarsjóðs yrðu greidd niður og að hann tæki ekki þátt í loddaraleik meirihlutans. „Við tökum ekki þátt í að laða íbúa til svæðisins undir fölskum forsendum, félagi Böðvar“, sagði Jóhann.