Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Miðvikudagur 18. febrúar 2004 kl. 11:00

Minnihluti bæjarstjórnar vill fá svör við kostnaði vegna bæjarhliðs

Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar lögðu fram bókun á bæjarstjórnarfundi í gær þar sem gagnrýnt er að svör hafi borist seint við spurningum minnihluta bæjarstjórnar um kostnað við svokallað bæjarhlið, en spurningarnar voru lagðar fram á bæjarstjórnarfundi þann 3. febrúar sl.  Í bókuninni segir að svör við spurningunum hafi ekki borist með fundargögnum sl. föstudag og að þau hafi verið borin heim til bæjarfulltrúa eftir hádegi í gær og að bæjarfulltrúar hafi ekki haft tíma til að fara yfir svörin fyrir bæjarstjórnarfund. Einnig kemur fram í bókuninni að óskað hafi verið eftir afritum af reikningum þann 4. febrúar sl. vegna framkvæmdanna en að þau afrit hafi ekki borist. Í lok bókunarinnar segir: „Þar sem þetta eru í engu samræmi við þær vinnureglur sem viðhafðar eru í Bæjarstjórn Reykjanesbæjar, áskiljum við okkur rétt til þess að taka málið aftur á dagskrá á næsta bæjarstjórnarfundi þann 2. mars nk.“

Bókun lögð fram í Bæjarstjórn Reykjanesbæjar 17. febrúar 2004

Á fundi bæjarstjórnar þann 3. febrúar 2004 var lögð fram skrifleg fyrirspurn til bæjarstjóra þar sem óskað var eftir yfirliti yfir kostnað vegna bæjarhliðs Reykjanesbæjar.  Bæjarstjóri svaraði þessari fyrirspurn munnlega á framangreindum fundi en sagðist að sjálfsögðu skila svarinu skriflegu eins og reglur gera ráð fyrir. Hins vegar bárust svör ekki sl. föstudag með gögnum bæjarstjórnar og fulltrúum tjáð að svari yrði dreift til bæjarfulltrúa fyrir fund. Svar er síðan borið heim til bæjarfulltrúa á þriðjudegi eftir hádegi,  án þess að skilaboðum um það væri komið til bæjarfulltrúa. Það mátti þess vegna gera ráð fyrir að bæjarfulltrúar, sem flestir eru í fullri vinnu, meðfram setu í bæjarstjórn, hafi engan tíma til þess að fara yfir svarið fyrir þá umræðu sem fyrirhugðuð var um málið í dag. Þá má einnig geta þess að óskað var eftir afriti af reikningum vegna þessarar framkvæmdar þann 4. febrúar sl., en þau afrit hafa heldur ekki borist. Þar sem þetta eru í engu samræmi við þær vinnureglur sem viðhafðar eru í Bæjarstjórn Reykjanesbæjar, áskiljum við okkur rétt til þess að taka málið aftur á dagskrá á næsta bæjarstjórnarfundi þann 2. mars nk.

Reykjanesbæ 17. febrúar 2004.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024