Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Minni íþrótta-  og tómstundaiðkun áhyggjuefni
Sunnudagur 7. október 2012 kl. 11:33

Minni íþrótta-  og tómstundaiðkun áhyggjuefni

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykkti tillögu Baldurs Guðmundssonar (D) formanns fræðsluráðs um að greina frekar niðurstöður könnunar um vímuefnaneyslu, hagi og líðan unglinga en þar kemur fram að íþrótta- og tómstundaiðkun unglinga í Reykjanesbæ er langt undir landsmeðaltali. Miklar umræður urðu um málið á bæjarstjórnarfundi í fyrradag.

Í bókun Baldurs kemur fram að megin niðurstaða rannsóknar á vímuefnaneyslu, högum og líðan unglinga á Íslandi sýnir að margt bendir til að staða ungs fólks hafi batnað á undanförnum árum í samfélaginu. Þannig hefur samverutími fjölskyldunnar aukist, útivist seint á kvöldin hefur dregist saman, vanlíðan í skóla hefur minnkað og trú á tilgangi náms hefur aukist. Þá hefur vímuefnaneysla enn dregist saman.

Reykjanesbær sker sig úr hvað varðar íþrótta- og tómstundaiðkun og þykir bæjarstjórn Reykjanesbæjar ástæða til að greina það ástand enn frekar. Bæjarstjórn samþykkir að undir forystu forvarnarfulltrúa skuli fræðslusvið, íþrótta- og tómstundasvið ásamt FFGÍR og ungmennaráði Reykjanesbæjar rýna í þessar niðurstöður og leita leiða til að virkja unglingana okkar til frekari íþrótta- og tómstundaiðkana. Álit og niðurstöður hópsins skulu sendar til bæjarráðs þegar þær liggja fyrir.

Í könnuninni kemur m.a. fram að skólaleiði er hjá piltum í elstu bekkjum grunnskóla en 14% þeirra þykir námið frekar tilgangslaust en þessi tala er 9% hjá piltum á landsbyggðinni. Reykingar hafa minnkað og munntóbaksnotkun einnig en er þó of mikil. Þá telja 20% 10. bekkinga í Reykjanesbæ að marijúana sé ekki hættulegt og er það 5% hærri tala en á landsbyggðinni. Þá eru á milli 10 og 15% drengja að jafnaði um 4 klukkustundir í tölvuleikjum á dag.

Margar hugmyndir komu fram í umræðum bæjarfulltrúa. Ein var sú hvort ekki mætti nýta skólahúsnæði í Reykjanesbæ betur undir tómstundaiðkun en starfsemi í skólunum er lokið um kl. 15 alla virka daga. Ljóst er að framboð á tómstundaiðkun fyrir ungmenni á þessum aldrei mætti vera meira.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024