Minnast látins bifhjólamanns
– Reykjanesbraut lokað á kafla vegna minningarathafnarinnar á fimmtudagskvöld
Gatnamótum Reykjanesbrautar og Hafnavegar verður lokað annað kvöld, fimmtudagskvöld vegna minningarathafnar um látinn bifhjólamann. Reykjanesbraut verður lokuð frá hringtorgi við Fitjar og að hringtorgi við Grænás. Þá verður Hafnavegi lokað við Flugvallarveg. Umferð um Hafnaveg kemst hjáleið um Ásbrú og umferð af Reykjanesbraut kemst hjáleið um Njarðarbraut.
Bifhjólamenn ætla að mæta að gatnamótunum kl. 19:45. Þar verður stutt athöfn kl. 20:00 þar sem látins bifhjólamanns verður minnst. Eftir athöfn við Reykjanesbraut ætlar hópurinn svo að hittast í félagsheimili bifhjólamanna, Hreiðrinu, og fá kaffiveitingar í boði Bifhjólaklúbbsins Arna.
Bifhjólafólk er hvatt til að mæta og sýna samstöðu og taka með sér gesti en allir eru velkomnir, segir í tilkynningu á fésbókinni undir kjörorðinu „Látum til okkar taka“ þar sem bifhjólafólk vill jafnframt vekja athygli á öryggi bifhjólafólks.